Umferðin í október jókst um 20% miðað við sama mánuð í fyrra
Umferðin í október á höfuðborgarsvæðinu jókst um nærri 20 prósent miðað við sama mánuð í fyrra. Umferðin er eigi að síður töluvert minni en hún var árið 2019 og einnig minni en hún var 2018. Á höfuðborgarsvæðinu er því ekki slegið met líkt og á Hringveginum að því fram kemur í tölum frá Vegagerðinni.
Umferð, yfir þrjú lykilmælisnið, innan höfuðborgarsvæðis jókst um tæp 20% í milli október mánaða 2020 og 2021. Umferð jókst mikið í öllum mælisniðum en mest um mælisnið á Hafnarfjarðarvegi eða um 34% og minnst um mælisnið á Vesturlandsvegi eða um 9%.
Skýringin á mikilli aukningu milli október mánaða er meðal annars sú að umferð í október á síðasta ári hafði dregist gríðarlega mikið saman og var umferðin þá svipuð því sem hún var árið 2014. T.d. var nýliðin októberumferð 4% minni en metárið 2019 og rúmlega 2% minni en árið 2018.
Á virkum dögum var mest ekið á föstudögum en minnst á þriðjudögum, í nýliðnum mánuði. Hlutfallslega jókst umferð mest á sunnudögum en minnst á föstudögum, miðað við sama mánuð á síðasta ári.