Umferðin jókst í nóvember á Hringveginum
Umferðin í nóvember á Hringveginum jókst um rúm níu prósent miðað við sama mánuð fyrir ári síðan. Þetta er heldur meiri umferð en reiknað var með, en nú er útlit fyrir að umferðin á Hringveginum aukist um 4,5 prósent í ár. Þótt dragi úr aukningu umferðar þá er hún eigi að síður talsverð á þessu ári.
Umferðin í nýliðnum mánuði jókst um 9,1% miðað við sama mánuð á síðasta ári. Þessi aukning er rétt umfram það sem von var á. Mest jókst umferðin um Norðurland eða um 13,2% en minnst um Suðurland eða um 6,9%. Þetta er heldur meiri aukning en átti sér stað á sama tíma á síðasta ári.
Nú hefur umferðin aukist um 4,7%, frá áramótum ef miðað er við sama tímabil á síðasta ári. Mest hefur umferðin aukist um Austurland eða um 6,9% en minnst um Norðurland eða um 2,6%. Þetta er rúmlega helmingi minni aukning miðað við sama tíma á síðasta ári og leita þarf aftur til ársins 2013 til að finna minni aukningu miðað við árstíma.
Umferð vikudaga
Það sem af er ári er langmest ekið á föstudögum en minnst hefur verið ekið um á laugardögum, rétt sjónarmun meira en á þriðjudögum.
Hlutfallslega hefur umferðin aukist mest á mánudögum, eða um 6,0%, en minnst hefur aukningin orðið á sunnudögum eða 0,4%.
Hegði umferðin sér líkt og í venjulegu árferði má búast við rúmlega 3% í desember og þá myndi árið í heild koma út með um 4,5% aukningu.