Umferðin jókst töluvert í nóvember þrátt fyrir ófærð
Umferðin um 16 lykiltalningarstaði Vegagerðarinnar á Hringveginum jókst um 7,2 prósent í nýliðnum nóvember mánuði. Mest jókst umferðin á Suðurlandi og þar mest um teljara á Mýrdalssandi. Þar jókst umferðin um 30 prósent.
Útlit er fyrir að umferðin aukist um meira en 10 prósent í ár, sem yrði næstmesta aukningin a.m.k. síðan 2005. Þetta kemur fram í tölum sem Vegagerðin var að gefa frá sér.
Milli mánaða 2016 og 2017
Umferðin jókst um 7,2% í nýliðnum nóvember þrátt fyrir talsverða ófærð. Mest jókst umferðin um Suðurland eða um tæp 11% en minnst varð aukningin um Austurland eða um 2,8%.
Hvað varðar einstaka talningastaði þá jókst umferðin lang mest um teljara á Mýrdalssandi eða um rúmlega 20%.
Minnst jókst umferðin um talningasnið í Kræklingahlíð norðan Akureyrar en þar varð tæplega 3% samdráttur í umferð miðað við sama mánuð á síðasta ári.
Nú hefur umferðin aukist um 10,6% frá áramótum um mælisniðin 16. Þetta er aðeins minni aukning en á sama tíma á síðasta ári en sú næst mesta frá því að þessi samantekt hófst.
Mest hefur umferðin aukist um Suðurland eða um 15,4% en minnst um Vesturland eða um 8,7%.
Umferð eftir vikudögum
Umferðin hefur vaxið hlutfallslega mest á þriðjudögum, eða um 12,1%. Minnst hefur umferðin vaxið á sunnudögum eða um 8,6%. Minnst er ekið á þriðjudögum og mest á föstudögum.
Gert er ráð fyrir að umferðin aukist um 8% í desember miðað við sama mánuð á síðasta ári. Gangi sú spá eftir mun umferðin aukast um 10,5% yfir mælisniðin 16, sem yrði þá næst mesta aukning, í þessum sniðum, frá því að þessi samantekt hófst.