Umhverfismildi eða öryggi?
Sá sem vill kaupa umhverfismildan bíl sem jafnframt er vel öruggur má leita nokkuð vel og lengi ef marka má nýja athugun sænska tryggingafélagsins Folksam. Einungis 12 af hverjum 100 nýrra bíla ársins 2009 eru viðunandi öruggir samkvæmt skilgreiningu Folksam.
Folksam hefur gefið út skýrslu af þessu tagi undanfarin 14 ár. Í henni er bæði umhverfismildi og öryggi nýrra bíla vegið og metið. Þessi nýjasta skýrsla sýnir þó að öryggisstuðull umhverfismildu bílanna hefur stöðugt verið að hækka enda þótt öryggiskröfur sem gerðar eru til bíla (m.a. af EuroNCAP) hafi verið hertar umtalsvert. Í fyrra reyndust 8% nýrra bíla öruggir 5 stjörnu bílar en eru nú 12% sem fyrr er sagt, þrátt fyrir verulega hertar kröfur milli áranna.
Anders Kullgren stjórnar umferðarrannsóknum hjá Folksam. Hann segir að sú gleðilega þróun sé að eiga sér stað að bílar verða stöðugt umhverfismildari og stöðugt öruggari. Þetta sýni sig í þeim nýju bílum, ekki síst í því ljósi að Folksam hafi hert umtalsvert þær kröfur sem gerðar eru til þess að bílar teljist umhverfismildir.
Þessar hertu umhverfiskröfur Folksam felast m.a. í því að nýju bílarnir þurfa að eyða 0,1 lítra minna af eldsneyti en bílar ársins á undan (2008). Um það bil 12 prósent þeirra bíla sem seldust árið 2009 uppfylltu lágmarks umhverfis- og öryggiskröfur Folksam samanlagt.
Sé hvor þáttur um sig skoðaður sérstaklega þá stóðust 37 prósent lágmarks öryggiskröfurnar og 27 prósent lágmarks eldsneytiseyðslukröfurnar. Árið 2009 stóðust líka 27 prósent bílanna eyðslukröfurnar en þeir voru ekki eins öruggir greinilega, því að einungis 21 prósent náðu þá því sem Folksam telur viðunandi.
Anders Kullgren segir að ef allir kaupendur nýrra bíla veldu sér þá bíla sem Folksam mælir með, þá myndu 30 mannslíf sparast á hverju ári í umferðarslysum í Svíþjóð og rúmlega 400 færri myndust slasast alvarlega.