Umhverfismildin ofboðslega dýr
Senn verður hægt að kaupa eða taka á langtímaleigu rafbílinn Peugeot Ion í Danmörku. En langtímaleigan verður ekki gefins – Við upphaf leigusamnings þarf að greiða um 518 þúsund kr. tryggingargjald og þar á eftir að greiða 114 þúsund kr. mánaðarleigu miðað við þriggja ára leigu og 30 þúsund km akstur eða einungis 10 þúsund km á ári. Hver ekinn kílómetri mun þannig kosta um kr.155,50 fyrir utan rafmagnskostnað og tryggingar. Rukkað verður svo aukalega fyrir hvern ekinn kílómetra umfram 30 þúsund kílómetrana sem innifaldir eru í leigunni.
Peugeot Ion er í rauninni Mitsubishi i-MIEV en bíllinn verður til sölu eða leigu í Evrópu á næstu vikum undir þremur merkjum; Mitsubishi, Peugeot og Citroen. Leigufyrirkomulagið í Danmörku er samvinnuverkefni Peugeot Danmark og dansks raforku- og rafbílafyrirtækis sem heitir Choosev (Veldu rafbíl). Markmiðið er það að leigutakar þurfi tæpast að hafa áhyggjur af því hvort bíllinn skilar þeim alla leið eða ekki. Drægi hans verður um 160 km og hleðslupóstar og þjónustustöðvar verði tiltækar sem víðast. Leigufyrirkomulagið var kynnt á bílasýningunni í París í síðustu viku.
Hætt er við að leiguverðið eigi eftir að standa í mörgum því þótt engin innflutnings- og skráningargjöld leggist á rafbíla í Danmörku er þessi fjögurra manna rafknúni smábíll rándýr og kostar svipað og talsvert vandaður lúxusbíll sem ber ofurhá innflutningsgjöld. Þetta leiguverð sem nefnt hefur verið hér að framan er mjög svipað því sem rukkað er fyrir nýjan BMW 320i langbak. BMW bíllinn ber svo há aðflutningsgjöld að hann næstum fjórfaldast í verði frá því sem hann kostaði við verksmiðjudyr í Munchen.
Upphafsgreiðslan fyrir BMW bílinn er að vísu lítilsháttar hærri en fyrir rafbílinn en helmingi fleiri kílómetrar eru innifaldir í leigunni eða 20 þ. km á ári. Það verður því dýrt að stunda umhverfismildi í umferðinni þótt orkukostnaður litla fjögurra manna rafbílsins verði lægri en af BMW -inum.
Gert er ráð fyrir því að orkukostnaður Peugeot Ion verði um 1/3 af orkukostnaði bensínbílsins BMW 320i auk þess sem ekki mun þurfa að greiða sérstaklega fyrir rafhleðslu á bílastæðum Q-Park og Europark, sé hleðslustaur á annaðborð til staðar þar.
Auðvitað er það kostur fyrir marga að engin bifreiðagjöld eru rukkuð af rafbílum í Danmörku og ekki þarf að greiða stöðugjöld fyrir þá á bílastæðum og við stöðumæla í eigu bílastæðasjóðs Kaupmannahafnarborgar. Þá fylgir með í leigunni að settur er upp einn hleðslustaur fyrir bílinn annaðhvort heima hjá leigutaka eða við vinnustað hans. Slíkur staur er sagður kosta að meðaltali 312 þúsund kr.
En þeir sem vilja munu vissulega geta keypt Peugeot Ion. Staðgreiðsluverð hans er 5,8 milljónir kr. Þegar það er borið saman við leiguverðið er ljóst að leigusalinn reiknar með gríðarlegu verðfalli á bílnum í lok leigutíma.