Umhverfismildur og 213 hestafla
Einhverntíman hefði það illa getað farið saman í einum og sama bílnum að vera skilgreindur sem umhverfismildur en jafnframt 213 hestafla tryllitæki. Nú er Volvo að byrja á að framleiða slíkan bíl sem kemur á markað í október. Umhverfismildin er fólgin í því að bíllinn gengur fyrst og fremst á metangasi ásamt bensíninu.
Bíllinn er svo sem ekki alveg nýr af nálinni en hann er V60 og er sérstaklega byggður sem metangasbíil en ekki eftirábreyttur. Vélin í þessum bíl verður fimm strokka túrbínuvél sem sérstaklega er umbreytt til að þola vel heitan gasbrunann í brunahólfum vélarinnar. Þá eru gasgeymarnir innbyggðir í bílinn og burðarvirki hans og bíllinn gerðarviðurkenndur sem gasbíll.
Volvo V60 Bi-Fuel er annar gasbíll Volvo, en þegar er í framleiðslu V70 gasbíll. Bæði V60 og V70 gasbílarnir eru og verða settir saman í Torslandaverksmiðjunni í Gautaborg þar sem höfuðstöðvar Volvo eru. V60 Bi-Fuel er sérstaklega hugsaður sem hagkvæmur kostur fyrir atvinnubílstjóra eins og leigubílstjóra og fólk sem ekur mikið.