Umhverfisvernd skal verða „hipp og sexý“

http://www.fib.is/myndir/Schwarzenegger.jpg
Arnold Schwarzenegger ríkisstjóri Kaliforníu.

Vaxtarræktartröllið, kvikmyndahetjan og ríkisstjóri Kaliforníu; Arnold Schwarzenegger sagði á umhverfisráðstefnu stúdenta við Georgetown University í Washington í vikunni að umhverfissinnar ættu að leitast við að benda á jákvæðar hliðar þess að draga úr útblæstri CO2 í stað þess að gera fólk sakbitið. Umhverfishreyfingin ætti að leitast við að vera jákvæð og „hipp og sexý“ í stað þess benda sífellt á meinta sökudólga. Umhverfisverndarsinnar yrðu að hrista af sér þá ímynd að þeir séu öfgafullir mussukallar og –kellíngar sem faðma tré. Þeir ættu ekki að vera eins og fúlir bindindismenn í miðju rússagildi og þá hlógu stúdentar að sögn BBC.http://www.fib.is/myndir/Schwarzenegger-hummer.jpg

Schwarzenegger kvaðst þegar sjá merki þess, ekki síst í ríki sínu Kaliforníu, að viðhorf til umhverfisverndarmála væri að breytast í jákvæða átt. Kalifornía væri reyndar fremst í Bandaríkjunum í því að fást við loftslagsbreytingar af mannavöldum og hefði ríkisþingið sl. ár samþykkt lög um það markmið að draga úr CO2 útblæstri um 25% fyrir árið 2020. Í frétt BBC sjónvarpsins í morgun sagði Schwarzenegger að markmiðið myndi að öllum líkindum nást svo rækilega að CO2 útblástur yrði orðinn 50% minni í Kaliforníu árið 2020 en hann er í dag.

Schwarzenegger hefur verið gagnrýndur fyrir aðdáun sína á stórum jeppum og Hummer bílum sem hann á nokkra. Hann sagði að búið væri að breyta þeim öllum þannig að þeir aka nú annaðhvort á vetni eða lífrænu eldsneyti. „Við höfum ekki áhuga á að rífa stóru og aflmiklu Hummerana og jeppana af eigendunum. Það er dæmt til að mistakast. Við eigum þess í stað að gera þá öfluga í umhverfismildinni,“ sagði ríkisstjórinn.

Bandarísku bílaframleiðendurnir hafa gagnrýnt nýju lögin í Kaliforníu og sagt ómögulegt að ná markmiðum þeirra í tæka tíð. Schwarzenegger sagði að því tilefni að það væri staðreynd að ef bílaframleiðendurnir gætu ekki byggt bíla sem standast nýju Kaliforníukröfurnar þá væru þeir þar með að viðurkenna að þeir gætu ekki staðist erlendum bílaframleiðendum og keppinautum snúning. Því yrði vart trúað.