Undirbúningur að Sundabraut er hafinn
Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, kynnti á ríkisstjórnarfundi fyrir helgina tillögu um að skipa verkefnisstjórn sem hafa mun umsjón með og fylgja eftir undirbúningi Sundabrautar, skipuð fulltrúum innviðaráðuneytis, Vegagerðarinnar, Reykjavíkurborgar og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Sérstakur verkefnisstjóri verður ráðinn til að starfa.
„Sundabraut mun hafa í för með sér mikinn samfélagslegan ávinning og því er mikilvægt að undirbúningur framkvæmdarinnar sé í traustum skorðum. Lagning Sundabrautar er ein arðsamasta framkvæmd sem um getur hér á landi með um 11% innri raunvexti. Þar að auki erum við að sjá að heildarakstur á höfuðborgarsvæðinu gæti minnkað um 150 þús. km á hverjum sólarhring við opnun Sundabrautar,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra.
Eins og kemur fram í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar miðast undirbúningur við að framkvæmdir hefjist 2026 og Sundabrautin verði tekin í notkun 2031. Fyrstu verkefnin á undirbúningstímabili felast m.a. í að hefja mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar, undirbúa samráð við íbúa og hagsmunaaðila á öllum stigum verkefnisins og huga að nauðsynlegum lagabreytingum og breytingum á skipulagi.
Gert er ráð fyrir því að haldið verði utan um framkvæmdina í sérstöku félagi í eigu ríkisins og er unnið að nánari útfærslu þess.
Áætlaður kostnaður við undirbúning Sundabrautar nemur um 1,5 milljarða kr. til ársins 2026 þegar stefnt er að framkvæmdir hefjist.