Undirbúningur Sundabrautar í góðum farvegi

Tölvugerð mynd af Sundabraut, séð frá Mógilsá.
Tölvugerð mynd af Sundabraut, séð frá Mógilsá.

Undirbúningur Sundabrautar er á góðri siglingu hjá Vegagerðinni og Reykjavíkurborg. Umhverfismatsskýrsla og breyting á aðalskipulagi Reykjavíkur verða kynntar með vorinu. Vonir standa til þess að útboðsferli samvinnuverkefnis um Sundabraut geti hafist á árinu 2025 að því er fram kemur á vefsíðu Vegagerðarinnar.

Sundabraut er nýr, u.þ.b. 11 km langur stofnvegur á höfuðborgarsvæðinu, frá Sæbraut að Kjalarnesi. Markmið verkefnisins er að bæta samgöngur fyrir alla ferðamáta á norðurhluta höfuðborgarsvæðisins með því að stytta vegalengdir og ferðatíma, dreifa umferð á fleiri leiðir og létta þannig á umferðarþunga. Með tilkomu Sundabrautar fá Vestur- og Norðurland betri tengingu við höfuðborgarsvæðið sem styður við atvinnu- og búsetufrelsi og eykur hagræði í vöruflutningum. Að auki eykst umferðaröryggi, aðgengi viðbragðsaðila batnar og útblástur og mengun minnka samfara minni akstri.

Mikil vinna liggur að baki umhverfismatinu

Frá því að matsáætlun Sundabrautar var kynnt haustið 2023 hefur mikil vinna verið lögð í rannsóknir og greiningar vegna mats á umhverfisáhrifum. Umfangsmiklar jarðtæknirannsóknir á landi og sjó hafa staðið yfir allt þetta ár og eru nú á lokametrunum. Unnið hefur verið að áframhaldandi útfærslu valkosta í frumdrögum en kostnaðarmat mannvirkja byggir m.a. á niðurstöðum jarðtæknirannsókna. Samhliða þessari vinnu hefur viðskiptaáætlun fyrir verkefnið verið að taka á sig mynd. Mikil vinna liggur að baki umhverfismatinu, ekki síst vegna fjölda valkosta sem orðið hafa til í undirbúningsferlinu, en vinna þarf ítarlegar greiningar á öllum leiðum sem settar eru fram í umhverfismatsskýrslu.

Valið stendur á milli þess að þvera Kleppsvík á brú eða í göngum

„Í grunninn stendur valið á milli þess að þvera Kleppsvík á brú eða í göngum. Fyrir brúarlausnina erum við síðan að skoða mismunandi útfærslur í hæð og lengd, auk gatnamóta og tenginga, bæði fyrir bíla, gangandi og hjólandi vegfarendur. Það tekur sinn tíma að frumhanna og rannsaka mismunandi leiðir svo hægt sé að meta framkvæmdakostnað mannvirkja og gera grein fyrir umhverfisáhrifum þeirra. Að auki liggur hluti Sundabrautar um viðkvæm svæði sem þarf að greina og rannsaka vel áður en ákvörðun verður tekin um endanlega útfærslu mannvirkja,” segir Helga Jóna Jónasdóttir, verkefnisstjóri Sundabrautar hjá Vegagerðinni.

Umhverfismatsskýrsla kynnt á árinu

Umhverfismatsskýrsla Sundabrautar verður tilbúin til kynningar með vorinu. Skýrslan mun verða öllum aðgengileg í Skipulagsgáttinni og að auki stendur til að halda opna kynningarfundi um niðurstöður umhverfismatsins þegar þar að kemur.

Helga Jóna segir kynningarnar verða með svipuðu sniði og haustið 2023 þegar matsáætlun var kynnt. „Þá héldum við sex kynningarfundi, þrjá í Reykjavík, einn hjá Vegagerðinni, auk funda í Mosfellsbæ og á Akranesi. Þeir fundir voru mjög vel sóttir og við reiknum með að áhuginn á umhverfismatsskýrslunni verði ekki minni.“

Á sama tíma verða kynntar breytingar á aðalskipulagi Reykjavíkur vegna Sundabrautar.

„Við, sem að verkefninu stöndum, hlökkum til að koma niðurstöðum umhverfismatsins í kynningu. Við væntum þess að skýrslan fái mikla umfjöllun, enda um stórt og mikilvægt verkefni að ræða, sem snertir marga á mismunandi hátt. Viðskiptaáætlunin verður líka þýðingarmikið plagg inn í alla umræðu og ákvarðanatöku varðandi Sundabraut.“ Þar vísar Helga Jóna til þess að Sundabraut verður fjármögnuð með gjaldtöku af umferð og gert ráð fyrir að einkaaðilar annist fjármögnun í samræmi við lög um samvinnuverkefni.

Allar forsendur fyrir leiðavali og ákvarðanatöku liggi fyrir um mitt árið 2025

„Við vonumst til þess að allar forsendur fyrir leiðavali og ákvarðanatöku liggi fyrir um mitt árið 2025. Í kjölfarið er hægt að hefja útboðsferli samvinnuverkefnis um Sundabraut með það fyrir augum að framkvæmdir geti hafist á árinu 2026 ef allt gengur upp,“ bætir Helga Jóna við.

Hún segir ákvörðun um leiðaval forsendu þess að hefja alvöru samtal við lykilhagsmunaaðila og mögulega bjóðendur í verkefninu.

„Til að byrja með þarf að ákveða hvort jarðgöng eða brú verða ofan á. Sú ákvörðun skiptir t.d. höfuðmáli fyrir starfsemi í Sundahöfn og dreifingu umferðar á áhrifasvæði Sundabrautar. Verði brúin fyrir valinu þarf að skoða mismunandi útfærslur og tengimöguleika áður en farið verður í endanlega hönnun mannvirkja og það sama á raunar við um göngin,“ segir Helga Jóna.