Undirskriftasöfnuninni lokið
Fyrir rúmri klukkustund, eða kl 12.00 á hádegi lauk undirskriftasöfnun FÍB gegn vegatollum á umferð um vegina út frá höfuðborgarsvæðinu. Rúmlega 41.500 manns undirrituðu mótmælin.
Vinnsla og greining á undirskriftalistunum er nú hafin. Þegar henni lýkur verða listarnir afhentir Ögmundi Jónassyni innanríkisráðherra. Afhendingin fer fram á fimmtudaginn kemur, þann 13. janúar.
FÍB þakkar hinar ótrúlega góðu undirtektir. Þessi undirskriftasöfnun er ein sú stærsta sem farið hefur fram á Íslandi, en jafnframt sú sem styst stóð yfir, eða rétt rúma viku. Hún sýnir ljóslega hug landsmanna til hinna lítt geðfelldu hugmyndar stjórnvalda að hyggjast mismuna íbúum landsins með sérstakri skattheimtu eftir búsetu. Hún sýnir líka að landsmenn eru andsnúnir því að taka fáeina mikilvægustu kafla hins íslenska þjóðvegakerfis úr sameiginlegri eigu allra landsmanna og færa þá á forræði hlutafélaga.
Þjóðvegunum má líkja við æðakerfi samfélagsins og höfuðborgarsvæðið er sem hjarta landsins. Að ætla sér að koma upp vegatollhliðum á leiðirnar út frá höfuðborgarsvæðinu er svipað og að ætla sér að stífla æðarnar næst sjálfu hjarta samfélagsins.