Ungir karlar deyja í gömlum bílum
Þeir aka of hratt miðað við getu og aðstæður. Þeir spenna ekki á sig sætisbeltin. Þeir keyra í gömlum og óöruggum bílum. Þeir keyra sig í hel. Þetta er í grófum dráttum niðurstaða nýrrar greiningar á dauðaslysum í dönsku umferðinni 2010 og 2011.
Ökumenn bíla í eldri kantinum aka oftar of hratt, þeir nota sjaldnar öryggisbeltin og stærra hlutfall þeirra lætur lífið í umferðarslysum en raunin er um þá sem aka nýjum og nýlegum bílum. Á vegum dönsku umferðarstofunnar hefur verið rýnt í öll umferðardauðaslys áranna 2010 og 2011, aðdraganda þeirra og ástæður og þetta er hin ískalda niðurstaða.
Almennt aka yngstu ökumennirnir í elstu bílunum. Því eldri sem bílarnir eru, þeim mun stærra verður hlutfall ökumanna sem eru yngri en 25 ára. Í ljós kemur að þriðji hver ökumaður 10-14 ára gamalla bíla í umræddum dauðaslysum var undir 25 ára aldri og 69 prósent þeirra voru karlmenn.
Nýir bílar vernda mannslíf
Rannsóknin leiðir ennfremur í ljós að því eldri sem slysabílarnir voru, þeim mun stærra varð hlutfall þeirra ökumanna sem létu lífið í slysunum sem rannsökuð voru. 13 prósent ökumanna 0-4 ára bíla létu lífið. Hlutfallsleg dánartala ökumannanna steig svo jafnt og þétt með hækkandi aldri bílanna. Í bílum 20 ára og eldri létust 53 prósent ökumannanna. Til viðbótar við þá lélegu vörn sem gömlu bílarnir veittu ökumönnunum þá sýnir rannsóknin einnig að hemlunareiginleikar bíla og almennt ástand þeirra versnar í réttu hlutfalli við hækkandi aldur þeirra en það má að verulegu leyti rekja til vanhirðu og lélegs viðhalds.
Frá þessari rannsókn er greint á fréttavef FDM, systurfélags FÍB en niðurstöður hennar eru svipaðar og annarrar nýlegrar rannsóknar sem gerð var á vegum danska tækniháskólans DTU með styrk frá FDM. Torben Lund Kudsk, deildarstjóri hjá FDM segir að báðar rannsóknirnar staðfesti að hefðu öll dauðaslysin sem urðu 2010 átt sér stað í bílum frá sama ári hefðu helmingi færri mannslíf glatast og þriðjungi færri slasast alvarlega. Niðurstöðurnar séu alvarleg áminning um hversu röng sú opinbera stefna er að leggja ofurhá skráningargjöld á nýja bíla og sérstakar álögur á margvíslegan öryggisbúnað nýrra bíla. Hún leiði til þess að óheyrilega dýrt er að endurnýja gamla bílinn og fá sér nýrri og þar með öruggari bíl.