Uppbygging eldsneytisverðs á Íslandi

Almennt séð á hærra hráolíuverð á heimsmarkaði að leiða til hærra bensín- og dísilolíuverðs á íslenskum markaði og fræðilega ætti lægra heimsmarkaðsverð að skila ódýrara eldsneytisverði til íslenskra neytenda. En það eru fleiri breytur sem hafa áhrif á hvað við borgum þegar við fyllum á bílinn. Heimsmarkaðsverð á olíu er skráð í dollurum þannig að gengi íslenskrar krónu gagnvart Bandaríkjadal hefur áhrif á verðmyndunina. Álagning olíufélaga í heildsölu og smásölu vegur mjög þungt. Íslenski markaðurinn er smár fákeppnismarkaður og þar hafa félög verið ber af samráði. Samkeppni er takmörkuð og rannsóknir hafa sýnt að álagning á bensín og dísilolíu er hærri en í nágrannaríkjum. Það er mikilvægt að stjórnvöld, Samkeppniseftirlitið, neytendasamtök og verkalýðshreyfingin veiti markaðnum aðhald í þeirri viðleitni að ýta undir heilbrigða samkeppni. Það þarf að tryggja gagnsæi varðandi verðmyndun á olíu fyrir almenning og hagsmunaaðila.

Háskatta neysluvara?

Neytendur greiða umtalsverða skatta af hverjum bensín- og dísilolíulítra frá dælu. Álögð vörugjöld á hvern bensínlítra í ár eru 88 krónur og kolefnisgjaldið er 11,70 krónur á lítra. Útsöluverð á bensíni frá dælu grundvallast á innkaupsverði sem tengist beint heimsmarkaðsverði á olíu, krónutölu sköttum, dreifingarkostnaði og álagningu síðan leggst 24% virðisaukaskattur ofan á alla summuna. Ef söluverð á bensínlítra er 310 krónur þá er virðisaukaskattur um 60 krónur. Miðað við 310 króna bensínlítra þá er skattur í ríkissjóð tæplega 160 krónur. Ef bíll er fylltur með 50 lítrum af bensíni þá eru skattar í ríkissjóð tæpar 8.000 krónur af áfyllingunni.

Útsöluverð á dísilolíu byggist upp svipað og bensínverð. Grunnurinn er innkaupsverð sem er breytilegt út frá heimsmarkaðsverði olíu og flutningskostnaður. Krónutöluskattar á hvern lítra eru olíugjald 75,40 krónur og kolefnisgjald 13,45 krónur. Álagning olíufélaga vegur þungt og loks leggst 24% virðisaukaskattur ofan á allt.

Hversu oft breytist dæluverð á Íslandi?

Útsöluverð á eldsneytis á íslenskum markaði á að vera í takti við heimsmarkaðsverð á olíu. Staðbundin samkeppni getur leitt af sér tímabundnar og stundum viðvarandi verðbreytingar. Einkenni íslenska markaðarins öfugt við t.d. þann danska er að yfir ákveðin tímabil virðist heimsmarkaðasverð á eldsneyti hafa minni áhrif á verðbreytingar til neytenda. Greiningar Samkeppniseftirlitsins benda til þess að verð á bifreiðaeldsneyti fylgi betur hækkun innkaupsverðs en lækkun.

Markaðsrannsókn Samkeppniseftirlitsins á eldsneytismarkaðnum skilaði af sér frummatsskýrslu í nóvember 2015 og aðgerðum til að draga úr samkeppnishömlum. Vinna Samkeppniseftirlitsins og innkoma Costco á íslenska eldsneytismarkaðinn 2017 hefur haft jákvæð áhrif á markaðinn. Fleiri neytendur hafa val um að kaupa eldsneyti á hagstæðara verði en á móti hefur álagning á dýrari stöðvum aukist.

Meiri vilji til hækkunar en lækkunar

Stundum hefur verið sagt að verð á eldsneyti hækki eins og flugeldur sem tekst á loft en lækki eins og fjöður sem fellur. Því lengur sem olíusali dregur að lækka dæluverð þegar innkaupsverð lækkar því jákvæðara er það fyrir framlegð fyrirtækisins. Það sama á við þegar olíutunnan hækkar í verði þá lækkar framlegðin ef dæluverðið hækkar ekki í takti. Verðbreytingar á markaði eru minna áberandi og samhæfðari á fákeppnismarkaði en þar sem hörð verðsamkeppni ríkir.

 

Hvað myndar verðið á bensíni og dísilolíu á Íslandi?

  • Bæði bensín og dísilolía eru unnin úr hráolíu. Verðið á bensíni og dísilolíu til íslenskra olíufélaga ræðst af heimsmarkaðsverði á hráolíu og afleiddum afurðum. Markaðsverðið ræðst af framboði og eftirspurn og einnig afkastagetu olíuhreinsunarstöðva.
  • Gengi íslenskrar krónu gagnvart dollar skiptir máli þar sem heimsmarkaðsverð olíu og eldsneytis er skráð í Bandaríkjadölum.
  • Álagning olíufélaga, birgða- og eldsneytissölufyrirtækja.
  • Skattar og gjöld í ríkissjóð (krónutöluskattar á hvern lítra).
  • Virðisaukaskattur leggst ofan á alla kostnaðarþætti við sölu frá dælu.

Í súluritunum sem fylgja með má sjá hvernig meðalverð á bensín- og dísillítra er byggt upp. Skattar eru um 51,5% af lítraverði bensíns og tæplega 48% af dísilolíulítranum. Álagning, flutningur og fl. er á milli 23 og 24% af seldum lítra.