Upplýsingafulltrúi Icelandair játaði lögbrot


http://www.fib.is/myndir/Icelandair_flugv.jpg


Guðjón Arngrímsson upplýsingafulltrúi Icelandair viðurkenndi í Kastljósi Sjónvarpsins í gærkvöldi að fyrirtæki hans væri að brjóta lög með því að birta of lág og þar með röng verð á flugsætum á heimasíðu sinni.

Við þau verð sem þar birtast eiga eftir að bætast við liðir sem nefnast „skattar og gjöld“ þannig að sú tala sem birt er sem verð er það alls ekki, heldur einungis hluti þess sem flugsætið í raun kostar. Dæmi um þetta er fargjald til Glasgow sem á Netinu er sagt kosta 14.900 krónur en þegar að því kemur að borga flugsætið á heimasíðunni kemur annað í ljós: Verðið er þá allt í einu orðið 9.060 krónum hærra því búið er að bæta við lið sem heitir „skattar og gjöld.“

Samkvæmt athugun FÍB blaðsins á verði flugsæta hjá Icelandair og Iceland Express og birtist í nóvembertölublaði FÍB blaðsins, hefur verið og er ennþá augljóst samræmi milli þeirra „skatta og gjalda“ sem bæði Icelandair og Iceland Express innheimta af farþegum. Við þessu hafa yfirvöld samkeppnis- og neytendamála ekki séð ástæðu til að bregðast, en málið mun þó komið á svokallaða aðgerðaáætlun Neytendastofu að því best er vitað. Hvenær aðgerðaáætlun verður að aðgerðum er svo alls óvíst.

Upphæð þessa liðs sem bæði flugfélögin nefna „skattar og gjöld“ er einnig mjög áþekk hjá báðum og síður en svo í samræmi við þá raunverulegu skatta og gjöld sem flugfélögunum ber að skila til flugmálayfirvalda á viðkomustöðum sínum og í heimahöfn hér á Íslandi, heldur miklu hærri.

Þessa sérkennilegu gjaldheimtu skýrði fjölmiðlafulltrúi Icelandair í útvarpsviðtali síðla á síðasta ári með því að mismunurinn milli raunverulegra skatta og gjalda væri sérstakt eldsneytisálag vegna hás eldsneytisverðs. Hann hélt sig enn við þá skýringu í Kastljósþættinum í gærkvöldi en tókst ekki að skýra út hversvegna gjaldið hefði þá ekki lækkað heldur þvert á móti hækkað nú þegar flugvélaeldsneyti hefur verið að hríðlækka í verði og sé nú um 25% ódýrara en í ágúst sl. „Eldsneyti hefur ekki lækkað svo mikið,“ sagði fulltrúinn og sagði síðan að þetta væri algjört smáatriði vegna þess að það sem skipti máli væri hvað það er sem fólk væri að borga. Framsetningarmátinn á Netinu væri ekki í lagi og því yrði að breyta.

Þar sem þessi ummæli upplýsingafulltrúans og ýmis fleiri um þetta mál eru verulega illskiljanleg er rétt að benda lesendum á greinina í FÍB blaðinu sem birtist í nóvembertölublaði síðasta árs. Í henni er tilgreint annarsvegar hver upphæð raunverulegra skatta og gjalda er og hinsvegar hver þessi „skatta og gjaldheimta“ flugfélaganna er og taktfastar hækkanir þeirra á þessum einkennilega gjaldaþætti. Greinina má nálgast með því að smella hér.

Útskýringar fjölmiðlafulltrúa Icelandair á málinu í Kastljósi Sjónvarpsins má svo sjá með því að smella hér.