Upplýsingar öllum til hagsbóta
Þarftu að láta gera við bílinn þinn? Það á alltaf að borga sig að gera við hluti og ef útlit er fyrir að viðgerð sé óhagkvæm á fagmaður að upplýsa neytandann um það. Ákvæði um þetta er að finna í þjónustukaupalögum. Lögin eru um margt matskennd og til dæmis óljóst hvað nákvæmlega felst í „óhagkvæmri viðgerð“. Þetta er m.a. það sem fram kemur í umfjöllun um málefnið á ruv.is.
Fram kemur í viðtali við Runólf Ólafsson, framkvæmdastjóra Félags íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB, að hann telji að viðmiðin mættu vera skýrari þegar bílaviðgerðir eru annars vegar. Runólfur segir að kostnaður megi ekki fara verulega mikið fram yfir eða umframkostnaður skuli vera innan velsæmismarka séu frekar óljós viðmið. Hann horfir til Svíþjóðar, segir að þar megi viðgerðarkostnaður ekki fara meira en 15% fram úr áætlun. „Það væri kannski gott að hafa eitthvað svona viðmið.“
Runólfur segir að lög um þjónustukaup séu um margt mjög góð en matskennd. Því sé grundvallaratriði að gera nákvæma kostnaðargreiningu áður en viðgerð fer fram.
„Oft og tíðum er ástæða þess að það verður einhver ágreiningur sú að það skorti bara betri upplýsingar í upphafi. Allar upplýsingar sem liggja uppi á borði eru bæði neytendanum og ekki síður þjónustuaðilanum til hagsbóta.“
Hér má nálgast umfjöllunina um þjónustukaupalögin en auk Runólfs Ólafssonar er viðtal einnig við Breka Karlsson formann Neytendasamtakanna.