Upplýsingastjóri ADAC rekinn
Upplýsingastjóri öflugasta bifreiðaeigendafélagsins í Evrópu; ADAC hefur verið látinn taka pokann sinn fyrir að hafa hrært í og breytt niðurstöðum árlegrar skoðanakönnunar um hvaða bíll er í mestu uppáhaldi hjá Þjóðverjum. Upp komst um fúskið sl. föstudag og á sunnudag var upplýsingastjórinn; Michael Ramstetter rekinn.
ADAC er gríðarlega öflugt félag. Meðlimir eru 19 milljónir og félagið rekur mjög fjölbreytta þjónustu við félaga sína og félaga annarra bílaklúbba sem margir FÍB félagar hafa notið góðs af í gegn um tíðina. ADAC rekur eina öflugustu vegaþjónustu í heimi sem árlega gefur út tölulegar uplýsingar um gæði og endingu bíltegunda sem byggjast á útköllum vegaþjónustunnar. Á vegum ADAC eru gerðar kannanir á margskonar hlutum eins og á öryggi og gæðum hverskonar samgangna og samgöngumannvirkja og er skemmst að minnast könnunar sem ADAC vann á öryggi vegfarenda í Hvalfjarðargöngum.
Árlega spyr ADAC félagsmenn sína hver sé þeirra uppáhalds bíll eða Lieblingsauto og sl. sunnudag viðurkenndi upplýsingastjórinn, Michael Ramstetter, að hafa breytt fjölda þeirra sem greiddu VW Golf atkvæði sitt. Þeir voru í raun einungis 3.409 sem Ramstetter þótti alltof lág tala og breytti henni með handafli í 34.299. Það breytti þó í engu þeirri niðurstöðu að Volkswagen Golf hefði eftir sem áður verið sigurvegari í þessari könnun, en með verulega færri atkvæðum en upplýsingafulltrúanum þótti tilhlýðilegt. Jafnframt viðurkenndi hann að hafa fúskað með niðurstöður samskonar könnunar árið 2012 til að láta könnunina líta marktækar út.