Uppsetning 98 hleðslustöðva ON í Kópavogi á lokametrunum

Nú eru 96 hleðslustöðvar komnar í rekstur af þeim 98 sem settar verða upp á fjórtán stöðum í Kópavogi í kjölfar samnings sem Orka náttúrunnar og Kópavogsbær undirrituðu fyrr í haust.

Íbúar eru þegar farnir að nýta sér þjónustuna en hleðslustöðvarnar eru staðsettar víða um bæinn, m.a. við skóla, sundlaugar og bókasöfn. Þetta gerir rafbílaeigendum kleift að hlaða bílinn á meðan þeir njóta þjónustu eða sinna vinnu í bænum. Gert er ráð fyrir að síðustu tvær stöðvarnar verði teknar í notkun fyrir áramót.

Stöðug aukning á Hverfahleðslutengjum ON

Með þessum nýju tengjum eru Hverfahleðslutengi ON á landsvísu orðin um 650 talsins, og mun þeim fjölga enn frekar á næstu misserum víða um land.

Aukin rafbílavæðing hefur skapað meiri eftirspurn eftir hleðslustöðvum í Kópavogi, sem og annars staðar. Það var því mikilvægt fyrir bæjarfélagið að bregðast við þessari þróun, tryggja gott aðgengi fyrir rafbílaeigendur og auðvelda um leið skiptin yfir í rafbíla.