Útlit fyrir að hálendisvegir opni mánuði fyrr en venjulega
Mjög snjólétt er á hálendinu og bendir flest til þess að hálendisvegir opni mánuði fyrr en venjulega.
Haft er eftir yfirverkstjóra hjá Vegagerðinni að þetta sé óvenjulegt, og grípa þurfi til ýmissa ráðstafanna þar sem umferð verður um vegina mun lengur en alla jafna. Einhverjir vegir ættu að vera opnaðir í næstu viku. Það kemur fram á www.ruv.is
Snjóleysið síðasta vetur virðist hafa ýmsar afleiðingar. Vegagerðin er nú í óða önn að hefla og bera í hálendisvegi á Norðaustanverðu landinu, sem er mjög snemmt miðað við árstíma.
Verið er að vinna í Hólsandi, austan Jökulsár á milli Grímsstaða og Ásbyrgis, sem ætti að ná að opna í næstu viku. Og eins veginn vestan frá Hólmatungum og upp að Dettifossi.
Venjulega eru hálendisvegirnir opnaðir um og eftir 20. júní. Og nauðsynlegt er að gera ráðstafanir þegar þeir eru opnaðir eins snemma og í ár.