Útsýnispallur kominn
Þótt framkvæmdir séu ekki hafnar við veggöngin undir Fehmarnsundið milli Rödby í Danmörku og Puttgarden í Þýskalandi, þá hefur verið reistur myndarlegur útsýnispallur svo fólk geti fylgst með framkvæmdunum þegar þær hefjast fyrir alvöru eftir tvö til þrjú ár.
Útsýnispallurinn er nærri ströndinn við Rödby og af honum verður hægt að fylgjast með framkvæmdunum við göngin sem verða lengstu neðansjávarveggöng veraldar, 19 kílómetrar. Sjálf göngin verða í stokkum á sjávarbotninum því að sjávarbotninn er ekki klöpp heldur djúp setlög sem ekki telst vænlegt að bora göng í.
Því verður reist gríðarmikil verksmiðja skammt frá útsýnispallinum þar sem einingar í stokkana verða framleiddar og þeim síðan sökkt til botns og skrúfaðar saman neðansjávar.
Sérstakt byggingafélag; Femern A/S hefur verið stofnað til að gera göngin. Ráðnir hafa verið iðnaðarmenn og verkamenn til starfa sem nú vinna að undirbúningi sem í sumar hefur falist í því að byggja útsýnispallinn, rífa gömul fiskvinnsluhús þar sem einingaverksmiðjan mun rísa og undirbúa svæði fyrir íverustaði þeirra þrjú þúsund starfsmanna sem munu starfa við framkvæmdirnar þegar þær komast á fullt skrið. Gert er ráð fyrir því að Fehmern-göngin verði tekin í notkun eftir átta til níu ár.