Vaðlaheiðargöng fremst í forgangsröðinni

Áformað er að lán við gerð Vaðlaheiðarganga verði tekin hér innanlands til 30 eða 40 ára og greidd niður með vegatollum, líkt og var með Hvalfjarðargöng. Það sem er líkt með þessum göngum er kostnaðurinn. Uppreiknað til verðlags í dag var kostnaður við Hvalfjarðargöng 11 milljarðar króna en áætlað er að Vaðlaheiðargöng kosti á bilinu 9-10 milljarða (tölur með virðisaukaskatti).

Hins vegar er umferðin fyrir norðan margfalt minni en um Hvalfjarðargöng. Spurningin sem vaknar er hvað vegatollar þurfa að vera háir um Vaðlaheiðargöng til að standa undir vöxtum og afborgunum – og hvort það nægi til.

http://www.fib.is/myndir/Vadlaheidarg.staedi.jpg
Vaðlaheiðargöng munu spara 16 km
og ca. 9 mín. Hvað „þola“ göngin há
veggjöld?

Þegar Hvalfjarðargöng opnuðu árið 1998 kostaði stök ferð tæpar 2.000 kr. uppreiknað til verðlags í dag. Nú kostar stök ferð 900 kr. en með 10 miða afsláttarkorti kostar ferðin 580 kr. Með mesta afslætti sem gefinn er vegna fólksbíla kostar ferðin 260 kr., sem er 70% afsláttur.

Mikil umferð um Hvalfjarðargöng

Lánin sem tekin voru til gerðar Hvalfjarð-arganga voru til 20 ára og verðtryggð með 9,2% vöxtum. Vegna mikilla tekna af gangagjöldum tókst að greiða lánin tiltölulega hratt niður og í framhaldinu lækkaði gjaldskráin. Umferð um Hvalfjarðargöng er 5.400 bílar á dag að jafnaði allan ársins hring, eða tvær milljónir á ári. Meðal gangagjald er 485 krónur.

Að jafnaði fara um 1.200 bílar á dag um Víkurskarð, sem Vaðlaheiðargöng munu „leysa af hólmi” – þ.e. göngin verða valkostur fyrir þá sem ekki vilja fara um skarðið. Leiðarstyttingin er 16 km og tímasparnaður 9 mínútur. Leiðarstytting um Hvalfjörð er hins vegar 42 km og tímasparnaður um 30 mínútur. Segja má að það geti verið þrefalt “ábatasamara” að fara um Hvalfjarðargöng en Vaðlaheiðargöng.

 Hvað þarf vegatollur að vera hár um Vaðlaheiðargöng?

Álitamálið sem aðstandendur Vaðlaheiðarganga standa frammi fyrir er hvað vegatollurinn ÞARF að vera hár til að standa undir kostnaðinum og hvað hann MÁ vera hár. Helst þarf þetta að vera ein og sama talan. Ef vegatollar standa ekki undir kostnaðinum þarf ríkissjóður að borga með göngunum. Ákvörðun um að hefja gerð þeirra byggist hins vegar á því að ríkið borgi ekki.

 Það sem hefur fyrst og fremst áhrif á upphæð vegatolla er hversu margir bílar fara um göngin og hvaða vaxtakjör verða á lánunum. Upphæð vegatollanna mun hafa afgerandi áhrif á hversu margir kjósa að fara göngin, sérstaklega að sumarlagi þegar færð er góð og útsýni fagurt af Víkurskarðinu.

 Á morgun verður nánar fjallað um það hér á vef FÍB hvað vegatollar gætu þurft að vera háir til að standa undir kostnaði við Vaðlaheiðargöng.