Vaðlaheiðargöng hf. stofnuð í gær
Í gær var stofnað á Akureyri hlutafélagið Vaðlaheiðargöng hf. sem ætlað er að bora veggöng undir Vaðlaheiðina. Vegagerðin á 51 prósent í félaginu en hið norðlenska hlutafélag Greið leið ehf. á 49 prósent. Ekki kemur fram hvert hlutafé félagsins er.
Í frétt á heimasíðu Vegagerðarinnar segir að verkið verði boðið út í vor og að framkvæmdir geti svo hafist í haust og áætlað er að þeim ljúki með opnun ganga fyrir árslok 2014. Vaðlaheiðargöng hf. sem er sem fyrr segir að 51 prósenti í eigu Vegagerðarinnar fær nú það lögbundna hlutverk sem Vegagerðin sjálf hefur hingað til haft í þjóðvegakerfinu, að vinna að undirbúningi og byggingu Vaðlaheiðarganga. Ríkissjóður tekur hins vegar lán til að fjármagna framkvæmdirnar en Vaðlaheiðargöng hf. fá að framkvæmdum loknum heimild til að „…innheimta gjald fyrir notkun gagnanna og skal það standa undir kostnaði við undirbúning og framkvæmd auk eftirlits og kostnaðar við álagningu og innheimtu gjalda,“ eins og segir í fréttinni á heimasíðu Vegagerðarinnar.
Um leið og þetta hlutafélag er stofnað og Vegagerðin og vegamálastjóri landsins í raun látin setja sig sjálfa til hliðar, er framkvæmda- og fjárveitingavaldið tilbúið til að skuldsetja galtóman ríkissjóðinn og um leið að skera niður framkvæmdafé til bráðnauðsynlegs viðhalds og nýframkvæmda m.a. til að útrýma þekktum slysagildrum úr vegakerfinu.
Vaðlaheiðargöng eru nú sett fremst á forgangslista vegaframkvæmda á landinu þrátt fyrir að ekki liggi fyrir marktækar kostnaðaráætlanir fyrir um endurgreiðslu lána vegna þeirra, um umferðarmagn, um upphæð vegatolla. Einungis er byggt á leiktjöldum sem sett hafa verið upp um meinta nauðsyn þessara ganga umfram aðrar vegaframkvæmdir um landið og mjög fegraðri mynd af framkvæmda- og fjármagnskostnaði, endurgreiðslum lána og væntanlegum vegatollum.
Ísköld kveðja
Ákvörðunin er í raun ísköld kveðja til landsmanna allra sem ekki lengur eiga efni á því að ferðast erinda sinna sökum ofurskatta á eldsneyti og rýrs kaupmáttar. Og hún er líka ísköld kveðja til íbúa Suðvesturlands sem mega enn um langa hríð búa við slysahæstu og hættulegustu vegi landsins. Hún er ísköld kveðja til Norðfirðinga, sem enn skulu fá að búa við stórháskalegan og erfiðan fjallveg og göng um Oddsskarð, til íbúa Vestfjarða, sem enn skulu um langa hríð fá að búa við verstu vegi landsins, svo fátt eitt sé nefnt.
FÍB hefur fært rök fyrir því hversu lausbeislaðar og ómarktækar allar áætlanirnar eru sem menn ætla að byggja Vaðlaheiðargöngin á og hvaða afleiðingar þessi kjördæmatengda vegagerð muni hafa til framtíðar. Þau rök hafa ekki verið hrakin, aðeins fullyrt að FÍB sé á móti landsbyggðinni, móti Norðlendingum og á móti Akureyringum og á móti verktökum. Þetta er óboðlegur málflutningur.
Alþingismenn hafa fengið nýjasta tölublað FÍB blaðsins sent. Þar koma rök málsins fram í ítarlegri grein. Sömuleiðis hefur FÍB fjallað ítarlega um málið á heimasíðu félagsins.
En ríkisvaldið fer sínu fram engu að síður og til að undirstrika kjördæmapotið var 1. þingmaður Norðausturkjördæmis, sjálfur fjármálaráðherrann og æðsti yfirmaður hins galtóma ríkissjóðs viðstaddur stofnfund Vaðlaheiðarganga hf. norður á Akureyri ásamt 3. þingmanni sama kjördæmis sem meira að segja var skipaður í stjórn hlutafélagsins. Getur kjördæmapotið orðið öllu skýrara?