Vaðlaheiðargöng komin fremst í röðina
Sú stóra vegaframkvæmd sem komin er efst á lista framkvæmdavaldsins er gerð jarðganga undir Vaðlaheiði, milli Akureyrar og Húsavíkur. Forvalsgögn verða send út á næstunni, með fyrirvara um fjármögnun. Að loknu forvali verður verkið boðið út. Framkvæmdir ættu jafnvel að geta hafist með vorinu. Vegagerðin áætlar að hin 7,5 km löngu Vaðlaheiðargöng kosti um 9 milljarða króna með vsk. Þar sem bergið í Vaðlaheiði er erfitt fyrir gangagerð má allt eins búast við að þessi kostnaður verði enn hærri, eða nær 10 milljörðum. Fjármagnskostnaður gæti síðan orðið á bilinu 6-10 milljarðar króna, eftir því hvaða vaxtakjör fást á framkvæmdalánum.
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hefur sagt að enga peninga sé að finna í ríkiskassanum til samgönguverkefna umfram þau sem ráðgerð eru í samgönguáætlun – og þar er ekki gert ráð fyrir fjárveitingum til Vaðlaheiðarganga.
Á fundi á Akureyri í lok janúar sl. sagði innanríkisráðherra að vegatollar ættu alfarið að standa undir gerð Vaðlaheiðarganga. Þar með sló hann út af borðinu vangaveltur um að ríkið borgi helming kostnaðarins en hinn helmingurinn verði greiddur með vegatollum.
Ferðin styttist um 9 mínútur
Vaðlaheiðargöng stytta meðal ökutíma milli Akureyrar og Húsavíkur um 9 mínútur og vegalengdina um 16 km. Göngin létta ökumönnum ekki síst lífið að vetrarlagi, enda getur orðið snjóþungt og hált í Víkurskarði, sem nær upp í 325 m hæð yfir sjávarmáli. Síðustu ár hefur skarðið lokast að jafnaði einn dag að vetri til vegna ófærðar, svo og hluta úr degi í nokkur skipti. Reiknað er með að umferðaróhöppum fækki um þrjú á ári með tilkomu Vaðlaheiðarganga.
Helsta ástæða þess að Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra ákvað að hleypa undirbúningi fyrir Vaðlaheiðargöng fremst í röðina, er að hans sögn mikil samstaða um málið fyrir norðan. Augsýnilega er þar meiri áhugi á að borga vegatolla en sunnan heiða.
Auk Vaðlaheiðarganga hefur Ögmundur verið talsmaður þess að fjármagna tvöföldun á Suðurlandsvegi og hluta Vesturlandsvegar með vegatollum, en þeim áætlunum hefur verið harðlega mótmælt. Rúmlega 40 þúsund manns skrifuðu undir mótmæli FÍB vegna áformaðra vegatolla. FÍB hefur bent á að bæta megi þessa vegi og auka umferðaröryggi á mun ódýrari hátt en með tvöföldun og þarmeð þurfi enga vegatolla að innheimta.
Áfram verður haldið með umfjöllun FÍB um Vaðlaheiðargöng á þessum vettvangi á mánudag.