Vaðlaheiðargöngin

Björn Valur Gíslason þingflokksformaður Vinstri Grænna segist við Akureyri vikublað sem út kom í morgun, reikna með því að lagafrumvarp sem veitir fjármálaráðherra heimild til að skuldbinda ríkissjóð með því að ábyrgjast 8,7 milljarða lán til Vaðlaheiðarganga verði að lögum síðar í dag. Frumvarpið snýst í raun um heimild til ráðherra um að víkja frá skilyrðum laga um ríkisábyrgðir þar sem hlutafélagið Vaðlaheiðargöng uppfylla ekki skilyrði um eiginfjárstöðu.

Í atkvæðagreiðslu eftir aðra umræðu málsins í gær var það sent fjárlaganefnd. Þaðan er það komið aftur og er á dagskrá þingfundar sem hefst kl. 10.30 í dag. Málið er hið fimmta á dagskránni til þriðu og síðustu umræðu og endanlegrar afgreiðslu. Bæjarstjóri Akureyrar segir við Akureyri vikublað í morgun að hann búist við að þessi umdeilda framkvæmd geti hafist fljótlega. Undirbúningur sé langt kominn.