Valmet í Finnlandi með eigin rafbíl
Finnska bíla- og traktoraframleiðslufyrirtækið Valmet ætlar að hella sér út í framleiðslu á litlum rafbíl undir eigin nafni. Valmet hefur hingað til ekki framleitt bníla í eigin nafni, heldur sett þá saman fyrir aðra, t.d. Saab, Porsche, Think og nú síðast Fisker Automobiles. Framleiðsla á rafknúnum lúxusbíl fyrir Fisker er einmitt að hefjast hjá Valmet innan skamms og framleiðsla á hinum norska Think er þegar í gangi. Innan bílageirans hefur Valmet orð á sér fyrir vandaða vinnu og bestu Porsche Boxter og Cayman sportbílarnir þóttu lengstum vera þeir sem Valmet skrúfaði saman.
Nýi Valmet rafbíllinn hefur fengið nafnið Eva. Þetta er lítill borgarbíll með 2+2 sætum og drægi hans er 160 km á hleðslunni. Eva verður frumsýnd á bílasýningunni í Genf sem hefst 4. mars.
Rafbíllinn Think á færibandi Valmet í Finnlandi. |
Valmet Automotive er í Nystad í Finnlandi og þar hófst samsetning á norska rafbílnum Think sl. haust og þar verður rafbíllinn Eva einnig framleiddur. Framleiðsla á Fisker Karma hefst svo með vorinu en sá bíll er til að byrja með einungis ætlaður fyrir Bandaríkjamarkað.
Eva rafbíllinn er að öllu leyti hannaður og þróaður af starfsmönnum Valmet. Myndir hafa enn ekki birst af bílnum heldur einungis teikningar en af þeim að dæma er nokkuð lagt upp úr útliti og smekklegum línum. Í fréttatilkynningu Valmet segir hins vegar fátt af afli og hámarkshraða né af innviðum bílsins, undirvagni og aflfærslu frá mótor til hjóla. Ekki er heldur tíundað hverskonar rafhlöður verða í bílnum og hversu lengi verður að hlaða þær.
En Finnarnir hjá Valmet eru ekki einir í þessu Evu-verkefni. Við sögu kemur líka orkufyrirtæki sem heitir Fortum og er með starfsemi í Skandinavíu, Rússlandi og Eystrasaltslöndunum. Fortum leggur til hleðslutæknina fyrir bílinn og setur upp hleðslustöðvar fyrir hann.
Ennfremur kemur Nokia að Evu-verkefninu með því að framleiða í bílinn rafrænt samskiptakerfi milli bíls og eiganda/ökumanns. Þessi samskipti bíls og eiganda eiga að fara fram um einskonar fjarstýringu sem eigandinn getur haft í vasa sínum eins og hvern annan farsíma. Nokia leggur einnig til staðsetningar- og leiðsögubúnað sem reiknar út drægi bílsins á hverjum tíma út frá aksturslagi og einnig landslagi. Kerfið sýnir líka hvar hleðslustöðvar er að finna á leið bílsins. Þetta leiðsögukerfi kemur frá Navteq sem er í eigu Nokia.