Vandaðri útfærslu þarf í inn­leiðingu kíló­metra­gjalds fyr­ir bens­ín- og dísil­bíla

Í fjárlagafrumvarpi næsta árs kemur fram að með inn­leiðingu kíló­metra­gjalds fyr­ir bens­ín- og dísil­bíla á næsta ári munu bæt­ast við sam­tals 233.000 öku­tæki sem greiða þarf gjaldið af. Þar seg­ir að þetta sé síðara skref við inn­leiðingu nýs, ein­fald­ara og sann­gjarn­ara gjald­töku­kerf­is af öku­tækj­um og eldsneyti.

Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda, var inntur eftir þessari inn­leiðingu kíló­metra­gjalds fyr­ir bens­ín- og dísil­bíla á næsta ári í síðdegis útvarpinu á Rás 2. Þar sagði Runólfur að til framtíðar litið væri eðlilegt að fara í þetta kílómetragjald. Hins vegar það sem lagt er til í þessu dæmi er mjög ómótað og það liggur ekki fyrir hvert gjaldið verði á fólksbíla. Það eina sem liggi þó fyrir eru áætlaðar tekjur af þessum gjaldabreytingum sem eiga að gefa ríkissjóði hátt í tíu milljarða um fram það sem tekið er af samærilegum sköttum í dag. Það gefur því augaleið að þarna er farið hressilega ofan í vasa almennings.

Runólfur sagði að fyrir venjulegt fólk þýddi þetta að meðaltali um 2-3 þúsund hækkun á mánuði við rekstur á bíl.

,,Við hjá FÍB höfum lagt á það áherslu að það þurfi að vinna þetta mun betur. Það komu fram tillögur frá stjórnvöldum sem gerði ráð fyrir að það yrði eitt gjald á alla bíla undir þremur og hálfu tonni. Kílómetragjald sem sagt á alla bíla. Við höfum bent á að það sé mjög óvenjulegt að setja eitt gjald á alla bíla undir þremur og hálfu tonni.

Engar áætlanir eða nálganir hafa verið lagðar fram

Tökum dæmi um einstakling sem ekur um á eins tonna fólksbíl og annar á 3,5 tonna trukki. Það er mjög ósanngjarnt að þessir aðilar séu að borga sama kílómetragjaldið. Þú myndir í daga borga mun hærra gjald í gegnum bensín- eða dísilskatta. Það er því óeðlileg skilaboð og kemur illa út gagnvart þeim sem eru á neyslugrennri, léttari og umhverfisvænni ökutækjum. Það hefur líka komið til tals að það komi stíghækkandi gjald á ökutæki um fram 3,5 tonn. Engar áætlanir eða nálganir hafa verið lagðar fram hvernig það eigi að leggjast á og er því óskrifaður víxill. Hitt er líka sem við höfum bent á að það þarf að gera all verulegar ráðstafanir áður en þessar breytingar koma til framkvæmda,“ sagði Runólfur.

Runólfur benti á að komi þær til breytinga á nýju ári þarf að tryggja það að lækkunin á bensín- og dísilgjöldum skili sér til neytenda. Hættan er sú að söluaðilar á sölu olíueldsneytis, sem eru á fákeppnismarkaði, haldi meiru eftir fyrir sig. Við erum að tala um að hver króna í seldu bensín- eða dísilolíu til eldssneytisnotkunar á ökutækjum skilar sér í formi 400-500 milljóna króna á ári. Freistingin er því mikil að geta hækkað álgninguna og þarna þarf því gott og mikið aðhald til að tryggja að þetta verði ekki neytendum í óhag.

Runólfur var spurður að því ef þetta væri einhverskonar leið til að koma fólki yfir á rafmagnsbíla hvernig mætti hún vera?

Sagan er hálf sögð eins og þetta stendur núna

,,Það yrði þá alltaf þessar sértæku leiðir eins og t.d. niðurfelling á gjöldum. Það hefur verið gert á undanförnum árum en okkur hefur tekist að rafvæða töluvert af flotanum. Það er reyndar minni endurnýjum yfir í rafbíla í ár heldur en á síðasta ári. Bílasala almennt er líka minni. Reyndar á núna að hækka kolefnisgjaldið sem leggst þá á bensín- og dísilbíla, hækkunin þar er veruleg, eða yfir 50% sýnist mér. Það vantar voða mikið út í frekari útlistun, sagan er hálf sögð eins og þetta stendur núna. Ég á því ekkert von á því endilega að þetta fari fram með þessum hætti í gegnum Alþingi. Það vantar bara vandaðri útfærslu. Núna hins vegar þegar menn er að læða þessu inn, bara til eins að ná fram verulegum skattahækkunum, þá er eitthvað sem okkur líst ekki vel á,“ sagði Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB, í viðtali í sídegis útvarpi Rásar 2.