Vandi í Vaðlaheiðargöngum
Vatnsæð opnaðist í austanverðum Vaðlaheiðargöngum á föstudaginn sl. Úr nýju æðinni streyma hátt í 600 sekúndulítrar af vatni að því talið er. Í þetta sinn er um að ræða kalt vatn. Dælur hafa ekki undan flaumnum og hefur vinna stöðvast og allt verðmætt flutt út úr göngunum, sem skemmst gæti í vatnsflaumnum. Áður hafði opnast opnast æð með heitu vatni í vestanverðum göngunum sem gerði um tíma ómögulegt að halda áfram vinnu í göngunum. Búast má við að þessi nýja uppákoma muni tefja framkvæmdir enn frekar en þegar er orðið og jafnvel tefla framhaldinu í tvísýnu.
Saga aðdraganda og framkvæmda við Vaðlaheiðargöngin er þyrnum stráð. Upphaflega átti þetta að vera einkaframkvæmd, enda voru Vaðlaheiðargöng ekki á samgönguáætlun. En þegar ekki tókst að fjármagna framkvæmdina þrátt fyrir mikla meinta arðsemi, var hún tekin út fyrir sviga samgönguáætlunar og henni velt yfir á herðar ríkissjóðs með fulltingi þingmanna kjördæmisins, þar af tveggja fyrrverandi ráðherra. Nú er svo komið að einkaframkvæmdin sem alfarið átti að fjármagna án nokkurs atbeina ríkisins, hefur algerlega verið kostuð af almannafé. Vaðlaheiðargöngin urðu landsbyggðarpólitísk.
Í öllum hinum ofurbjartsýnu áætlunum aðstandenda framkvæmdarinnar var nauðsyn hennar og einstök hagkvæmni mjög rómuð. Þeir sem bentu á augljósar veilur í áætlununum, þeirra á meðal FÍB, voru hiklaust úthrópaðir sem óvinir Akureyringa og Norðlendinga og jafnvel landsbyggðarinnar í heild. En þessu til viðbótar þá var gerð jarðfræðileg rannsókn á fyrirhuguðum jarðgangastað. Hún leiddi í ljós að framkvæmdinni fylgdi jarðfræðileg áhætta sem lítt var flaggað. Orðrétt segir svo um þessa áhættu í lokaorðum rannsóknarskýrslunnar:
„Í heildina má segja að aðstæður til gangagerðar gegnum Vaðlaheiði teljist dálítið undir meðallagi miðað við veggöng hérlendis. Basaltlögin eru sterkleg til gangagerðar en nokkur setbergslög draga aðstæður niður. Loks er áréttað að sprungur geti orðið nokkuð áhættusamar hvað varðar innflæði vatns og bergstyrkingar og verða þær líklega mesti óvissuþátturinn við gangagerðina.“