Var of dýrt!

http://www.fib.is/myndir/Hyundaii10.jpg

Til að freista þess að eyða öllum efa um gæði framleiðslunnar innleiddi kóreski bílaframleiðandinn Hyundai á síðasta ári níu ára ábyrgð á nokkrum gerðum bíla sinna í Evrópu. Nú hefur Hyundai afturkallað þessa ríflegu ábyrgð frá og með næstu áramótum vegna þess að hún sé of dýr. Hún gildir þó áfram á þeim bílum sem þegar hafa verið seldir með henni um næstu áramót. 

Megintilgangurinn með níu ára ábyrgðinni var að styrkja trúverðugleika Hyundai bíla ekki síst í löndum þar sem vörumerkið var lítt eða ekki þekkt meðal bílakaupenda, t.d. í Svíþjóð. Það tókst vissulega því að salan tók kipp, þó ekki þann stóra kipp sem vænst hafði verið.

Nú er rúmt ár liðið frá því að þetta söluátak og níu ára ábyrgðin gekk í gildi. Þegar hvorutveggja lýkur tekur við hefðbundin tveggja til þriggja ára almenn verksmiðuábyrgð. Til viðbótar verður fáanleg þriggja ára ábyrgð á lakki, sex til tíu ára tæringarábyrgð á yfirbyggingu og undirvagni, níu ára ábyrgð á rafkerfi og þriggja ára ábyrgð gagnvart bilunum á vegum úti. Allt þetta sem hér hefur verið upptalið er það sem evrópskum kaupendum flestra annarra bílategunda stendur til boða þegar keyptur er nýr bíll. Síðastnefnda ábyrgðin, bilanaábyrgð á vegum úti hefur hins vegar ekki staðið íslenskum kaupendum nýrra bíla til boða, öðrum en kaupendum nýrra Porsche bíla.