Varað við kínverskum hjólbörðum
Flestar gerðir ódýrustu hjólbarðanna sem nú fást koma frá Kína. Margir freistast til þess að kaupa þessa hjólbarða þar sem verðið er mun lægra en á vestrænum hjólbörðum af algengum og viðurkenndum tegundum. En því miður eru mörg þessara ódýru kínversku dekkja einungis eftirlíkingar vestrænna, þrautprófaðra og örugggra dekkja og mörg hver afar léleg og beinlínis hættuleg.
Kínversku dekkin líta mjög svipað út og evrópsk og bandarísk dekk, heita svipuðum nöfnum en eru mun vanþróaðri og hafa alls ekki gengist undir jafn viðammiklar prófanir og endurbætur og dekk viðurkenndra framleiðenda. Dekkjaframleiðandinn Continental hefur sérstaklega varað við kínverskum eftirlíkingum Continental dekkja þar sem þau séu hreinlega ógn við öryggi fólksins í bílnum.
Nýlega neyddist lítið bandarískt fyrirtæki sem flytur inn kínversk dekk að innkalla 450 þúsund dekk fyrir jeppa og pallbíla eftir að umferðaröryggisstofnunin NHTSA hafði metið þau lífshættuleg í kjölfar þess að tvö dekk af þessari tilteknu tegund höfðu hvellsprungið fyrirvaralaust með þeim afleiðingum að tveir ökumenn létu lífið. Talsmenn fyrirtækisins, sem heitir FTS, telja að þetta dekkjaævintýri kosti það 64 milljónir dollara og hafa höfðað mál á hendur kínverska dekkjaframleiðandanum Hangzhou Zhongce Rubber Co.
Forstjóri Continental hjólbarða í Danmörku hefur nú hvatt danska bíleigendur til að gæta sín á ódýrum kínverskum dekkjum. Sérstaklega varar hann fólk við að kaupa dekk á Internetinu því að ómögulegt sé að ganga úr skugga um hvort um sé að ræða ódýra eftirlíkingu fyrr en kaupandi hefur fengið dekkið í hendur.
Stöðugt fleiri Danir kaupa ný dekk á Internetinu sem er bæði þægilegt og einfalt. Gallinn er bara sá að ómögulegt er að ganga úr skugga um framleiðanda og framleiðslustað nema að hafa dekkið fyrir framan sig og lesa úr framleiðslukóðunum á dekkinu sjálfu. Hættan er því sú að kaupa köttinn í sekknum – fá í hendur lélega eftirlíkingu í stað þess sem maður hélt að væri ágætis dekk frá viðurkenndum framleiðanda á mjög hagstæðu verði..