Varaformaður FÍB til Tansaníu

Ólafur Kr. Guðmundsson varaformaður FÍB og tæknistóri EuroRAP á Íslandi er á leið til Tansaníu í Afríku til að kenna starfsfólki hins þarlenda systurfélags FÍB á vegrýni EuroRAP sem þar hefst í febrúarmánuði. Ólafur tekur með sér talsvert af þeim tæknibúnaði sem notaður hefur verið við EuroRAP vegrýnina hér á landi og að nokkru leyti er þróaður hér. Verkefni hans verður að setja búnaðinn upp í mælingabílnum sem notaður verður, prófa hann og kenna og þjálfa síðan þá sem starfa munu við mælingarnar í Tansaníu.

http://www.fib.is/myndir/Afriku-Oli.jpg
Ólafur Kr. Guðmundsson við íslenska EuroRAP bílinn.

Auk Ólafs fara einnig tæknistjóri EuroRAP í Evrópu; James Bradford og sérfræðingur frá ADAC, systurfélagi FÍB í Þýskalandi, til Tansaníu. Þremenningarnir munu í sameiningu hleypa vegrýniverkefninu af stokkunum í landinu.

Verkefnið í Tansaníu hefst í febrúar. Það er á sinn hátt framlag alþjóðasamtaka bifreiðaeigendafélaga sem lýtur að því að skapa öruggari umferð með því að finna og skilgreina háskalega kafla og staði í vegakerfinu og gera vegina öruggari í framhaldinu. Verkefnið er unnið á vegum i-RAP með stuðningi frá Alþjóðabankanum. I-RAP er afsprengi EuroRAP (European Road Assessment Program) og er samstarfsvettvangur hins bandaríska US-RAP og hins ástralska Aus-RAP. Tilgangur i-RAP er sá að aðstoða þróunarríki við að koma sér upp öruggum vegum og öruggri umferð og lækka hina ógnvænlega háu dauðaslysatíðni sem þar er.

Verkaskipting með EuroRAP, US-RAP og AusRAP er í stórum dráttum þannig að Bandaríkjamenn hafa umsjón með vegrýni í Mið- og Suður-Ameríku, Ástralir í Asíu og Eyjaálfu og Evrópumenn í Afríku. Vegrýni er þegar hafin í S. Afríku, Kenýa og Úganda og nú í Tansaníu, þar sem Íslendingar, Bretar og Þjóðverjar koma að málum, sem fyrr er greint frá. 

http://www.fib.is/myndir/Afrika-james.jpg
James Bradford tv. leiðbeinir Tansaníumanni í EuroRAP.

Fyrstu vikuna mun James Bradford tæknistjóri EuroRAP fara yfir málin með þeim heimamönnum sem starfa munu við verkefnið en síðan kemur Ólafur og tekur við af honum og annast verklega þjálfun mælingamanna, m.a. með því að mæla fyrstu 6.300 kílómetrana af vegakerfi Tansaníu. Þýski sérfræðingurinn mun einkum annast eftirvinnslu og útreikninga úr niðurstöðum mælinga.

Ólafur verður að mælingum á vegum Tansaníu til 19. febrúar en þá tekur hann við öðru verkefni í Tansaníu, sem er að vera yfirdómari FiA í Tansaníurallinu sem þá hefst í höfuðborg landsins, Dar Es Salaam. Rallið er Afríkumeistarakeppni í ralli og lýtur yfirumsjón FiA – alþjóðasamtaka bifreiðaeigendafélaga og bílaíþróttafélaga.