Varasamt að aka á vetrardekkjum yfir sumarið

Könnun Infact fyrir hönd Dekkmann í Noregi fyrir nokkrum misserum síðan sýndi að flestir Norðmenn hafa ekki hugmynd um það hversu hættulegt það er að aka á vetrardekkjum yfir sumarið. Könnunin leiddi í ljós að fimmti hver bíleigandi hefur ekið á ónegldum vetrardekkjum yfir sumarið. Einnig var spurt um hemlunarvegalengd bíls á vetrardekkjum við sumarhita á blautum vegi.  Svörin voru langt frá raunveruleikanum. 

Continental í Noregi kannaði fyrir tveimur árum mismun á hemlunarvegalengd sumar- og vetrardekkja á Vålerbanen akstursbrautinni (https://www.vaalerbanen.no/en/) við sumaraðstæður. Niðurstaðan var sláandi eða 84% lengri hemlunarvegalengd á blautu malbiki við nauðhemlun frá 110 km hraða niður í 0 km á klukkustund á vetrardekki samanborið við sumardekk. Hemlunarvegalengdin var næstum tvisvar sinnum lengri á vetrardekkjum við þessar aðstæður. 

Þetta eru ekki ný vísindi og eitthvað sem dekkjaframleiðendur og umferðaröryggissérfræðingar hafa haldið á lofti árum saman. Norska tímaritið BIL kannaði í kjölfar Vålerbanen rannsóknarinnar skynjun almennra bíleigenda á hemlunarvegalengd eftir því hvort ekið er á sumar- eða vetrardekki við sumaraðstæður.

Niðurstöðurnar sýna að almenningur er alls ekki nægilega meðvitaður um hættuna við það að notast við vetrardekk á sumrin. Könnunin leiddi í ljós að 34,1% Norðmanna telja að hemlunarlengd aukist aðeins um fjórðung (25 prósent), 5,7% telja að hemlunarvegalengdin aukist um 10% og 24,5% telja að hemlunarlengdin aukist um 50%. Aðeins 17,1% svarenda telja að hemlunarvegalengdin sé tvisvar sinnum lengri og 18,7% sögðust ekki vita svarið. 

,,Þetta sýnir að flestir Norðmenn skilja ekki hversu hættulegt það er að aka um á naglalausum vetrardekkjum á sumrin. Og þess vegna eru svona margir að gera það. Það er sérhæfð gúmmíblanda í hefðbundnu vetrardekki  og mynstur sem sérstaklega er hannað fyrir vetrarkulda, snjó og ís. Vetrardekkin eru ekki hönnuð fyrir hlýindatímabil.  Það ætti að banna notkun vetrardekkja í akstri á sumrin, að minnsta kosti í júní, júlí og ágúst,“ segir Torleiv Dalen Haukenes vörustjóri Dekkman hjólbarðaþjónustunnar í Noregi.