Varasöm þakbox geta slasað fólk
Mörg af þeim þakboxum sem bjóðast eru varasöm og standast ekki árekstrarpróf. Skiði, skíðastafir og skíðaklossar fljúga út úr þeim við árekstur. Skíðin gætu stungist í gegn um framrúðu mótakandi bíls í árekstri og valdið alvarlegum meiðslum og jafnvel dauða að sögn yfirmanns slysarannsókna hjá sænska tryggingafélagin Folksam í samtali Dagens Nyheter.
Hin lagalega krafa til þakboxa er yfirleitt sú að þau sjálf og festingar þeirra þoli álag upp á 1 g en það jafngildir nokkurnveginn nauðhemlun á þurrum vegi með bundnu slitlagi. Lögin mæla þannig fyrir um lágmarkskröfur. Það er síðan undir einstökum framleiðendum komið hvernig og hversu vel þau eru svo gerð úr garði umfram lögbundna lágmarkið. Það skýrir mjög misjafnt gengi boxanna í nýju árekstursprófi sem gert var nýlega. Að þessu árekstursprófi stóðu Folksam/Testfakta í Svíþjóð og hið norska systurfélag FÍB; NAF. Flest boxin eru gefin upp fyrir að þola 75 kílóa hleðslu en í prófuninni voru þau fest á sleða og hlaðið í þau ýmist 50 kílóum af skíðabúnaði, en einnig fullri uppgefinni þyngd. Farangurinn var spenntur fastur inni í boxunum í samræmi við notkunarleiðbeiningar framleiðenda. Sleðanum var síðan ekið á 40 km hraða á hindrun. Sænski slysarannsóknastjórinn segir að niðurstöður prófananna séu þess eðlis að full ástæða sé fyrir norræn samgönguyfirvöld gefa þeim gaum og yfirfara löggjöf um þessi box.
Athyglisvert er að engin fylgni reyndist vera milli verðs boxanna og árangurs þeirra í prófuninni og aðeins sænska Thule-boxið reyndist fært um að halda farangrinum inni í sér við áreksturinn. Það eitt reyndist einnig vera vatnsþétt og auk þess handhægast í notkun. Það er það box sem best kemur út en er langt í frá það dýrasta.
Ódýrustu boxin í prófinu voru frá Biltema og Jula. Þau reyndust næst best á eftir boxinu frá Thule. Að vísu brustu gaflveggir þeirra við áreksturinn og skíðaendarnir stóðu út. Enginn farangur varð þó viðskila við boxin. Bæði boxin voru einungis prófuð með 50 kílóum af skíðabúnaði en það er uppgefin hámarks farangursþyngd þeirra.
Boxin frá Calix og Mont Blanc eru þau dýrustu af þeim sem prófuð voru. Calix kostar 122 þúsund ísl. kr og Mont Blanc 91.500 ísl. kr. í Svíþjóð. Ekki verður sagt að verðið endurspegli styrk þeirra því að þau stóðust prófið verst allra. Ýmist flaug allur farangurinn fram úr þeim við áreksturinn eða þau losnuðu í heilu lagi og tóku flugið.
Þetta þolpróf var gert hjá Sveriges Tekniska Forskningsinstitut. Boxin voru fest á sleðabúnaðinn og var farið í einu og öllu eftir forskrift og leiðbeiningum framleiðendanna. Skíðabúnaðinum var hlaðið í boxin og bætt við sandsekkjum til að ná farangursþyngdinni réttri. Sleðanum var á 40 km hraða við áreksturinn og var höggþunginn á boxin 12 g í árekstrinum. Hver tegund var prófuð tvisvar; annarsvegar með 50 kílóum af farangri og hins vegar með uppgefinni hámarksþyngd. Þau box sem einungis voru gefin upp fyrir 50 kílóa þunga voru prófuð einu sinni.
Þéttleiki boxanna var prófaður þannig að þau voru fest á þak á bíl sem stóð undir steypibaði sem jafngilti akstri í hellirigningu á 80 km hraða í 15 mínútur. Þá var það vatnsmagn sem inn hafði komist mælt. Ennfremur mátu þrjár manneskjur hver í sínu lagi hversu auðveld boxin voru í uppsetningu, í hleðslu og afhleðslu og hversu góðar læsingar þeirra og festingar væru. Alls voru í þessu verki tíu mismunandi atriði skoðuð og metin.
Smellið á myndina til að stækka hana.