Varist sölumenn eldsneytissparnaðarbúnaðar
Snákaolía átti eitt sinn að vera allra meina bót en var í raun í besta fallli vita gagnslaus. Allskonar bensínsparnaðardót í bíla er á sama hátt í besta falli vita gagnslaust segir AA.
Systurfélag FÍB í Bretlandi; AA, varar bifreiðaeigendur við hverskonar eldsneytissparnaðarbúnaði og –dóti til að setja í bíla. Slíkur búnaður og auglýsingar á honum verða jafnan áberandi þegar eldsneytisverð er hátt eins og nú er. Seljendur og framleiðendur þessa búnaðar, sem oft eru einhverjir hólkar eða trektar til að setja á eldsneytislagnir eða loftinntak bílvéla, eða pillur til að setja út í eldsneytið, segja að þetta dót eigi að draga svo og svo mikið úr eldsneytiseyðslu. Staðreyndin er hins vegar sú að dótið gerir nánast aldrei það gagn sem seljendur og framleiðendur lofa, segir AA. Fólk ætti því að hafa á sér vara gagnvart sölumennsku af þessu tagi og láta ekki ginnast til að kaupa þessa hluti, oft dýrum dómum.
Jack Biddle er tæknilegur ráðgjafi hjá AA. Hann segir að fólk ætti að gjalda varhug við tilboðum um kaup á hverskonar íhlutum eða eldsneytisbætiefnum og trúa ekki fullyrðingum um meintan eldsneytissparnað sem sagður er nást með tilstyrk þessa. Íhlutirnir og bætiefnin hafi sjaldnast verið prófuð og sannreynd af óháðum aðilum sem hafa tæknilega þekkingu og burði til slíks. Þvert á móti sé það staðreynd að bæði íhlutir og bætiefni af sem hafa verið prófuð með vísindalegum sýndu sig að vera gagnslaus í besta falli og leiddu ekki til nokkurs minnsta eldsneytissparnaðar eða drógu úr útblástursmengun.
Australian Automobile Association, AAA í Ástralíu hefur í samvinnu við ástralska ríkið boðið framleiðendum bensínsparnaðaríhluta og –efna sem fást í Ástralíu, upp á óháða skoðun og prófun á þessum fyrirbærum. Einungis einn framleiðandi hefur hingað til þegið boðið – framleiðandi búnaðar sem nefnist Fitch Fuel Catalyst. Búnaðinum var komið fyrir á eldsneytislögninni í tveimur bílum. Engar breytingar mældust á eldsneytiseyðslunni í hvorugum bílnum. Búnaðurinn reyndist semsagt vita gagnslaus.
Bandaríska umhverfisstofnunin The Environmental Protection Agency hefur prófað yfir 100 tegundir „bensínsparnaðarbúnaðar“ og –bætiefna. Engin einasta þessara prófana leiddi í ljós bætta eldsneytisnýtingu og eldsneytissparnað. Einungis búnaður sem dregur úr aflþörf aukabúnaðar í bílum; t.d. lofkælingar, sem og búnaður sem varar ökumann við að gefa of mikið í eða segir honum að skipta fljótar upp í hærri gír, hefur getað sýnt fram á lítilsháttar eldsneytissparnað.
„Bílaframleiðendur verja milljörðum dollara í rannsóknir og þróun á tækni og tæknibúnaði til að draga úr eldsneytiseyðslu. Þeir láta einskis ófreistað í þeim efnum. Þeir leitast við að byggja bílana úr léttari efnum, þeir koma fyrir mælibúnaði í bíla sem fylgist með lofþrýstingi í hjólbörðum því að margt smátt í þessum efnum gerir eitt stórt. Ef einhver búnaður eða íhlutur sýnir sig í því að vera eldsneytissparandi ætti því að vera augljóst að framleiðendur bíla væru ekki lengi að setja hann í bílana,“ segir Jack Briddle. Hann segir ennfremur að AA hafi alltaf allan fyrirvara á þeim „vísindalegu“ prófunum sem framleiðendur alls kyns töfrabúnaðar og töframeðala fullyrða að gerðar hafi verið, sem og yfirlýsingum kaupenda sem segjast hafa náð svo og svo miklum eldsneytissparnaði eftir að töfrabúnaðurinn eða töfraefnið var sett í bíla þeirra.
„Ef einhver svona búnaður virkar í raun og veru þá hlýtur framleiðandi hans að vera meir en tilbúinn til að láta hann gangast undir raunverulega og óháða prófun og una síðan niðurstöðunum hverjar sem þær svo verða,“ segir Jack Briddle. Hann segir að í núverandi ástandi á eldsneytismarkaði heimsins megi því miður búast við vaxandi ágangi sölumanna hverskonar töframeðala af þessu tagi. Því miður séu yfirlýsingar þeirra langoftast allt of góðar til að vera sannar.
En bifreiðaeigendur geti vissulega sparað eldsneyti. Það geri þeir best með því að taka upp mýkra aksturslag og forðast óþarfa hraðakstur, halda bílnum vel við, hafa vélina vel stillta og réttan loftþrýsting í hjólbörðum. Það virki, „snákaolían“ ekki.