Varúðarleiðbeiningar vegna aksturs um vegi með háu vatnsyfirborði
Borið hefur á mikilli vatnssöfnun á vegum og götum landsins undanfarið. Þetta tengist m.a. rysjóttri tíð, storma- og úrkomusamri veðráttu með frosta- og hlákuköflum á víxl. Snjóruðningar, klaki, rok og rigning. Oft finnur leysingavatnið ekki farveg í fráveitukerfin enda niðurföll víða í klakaböndum. Mikill klaki og þéttur snjór er á mörgum götum og vegum. Að undanförnu hafa vegir verið að koma mjög illa undan vetri og mikið um holur og hvörf í vegakerfinu. Vatn safnast fyrir í holum, hvörfum, álum og í dældum eða við stífluð niðurföll. Bíleigendur þurfa að sýna aðgát og vera við öllu búnir til að draga úr líkum á tjóni.
Þegar ekið er yfir vegarkafla með háu vatnsyfirborði, djúpum pollum og eða mikilli vatnssöfnun þarf að sýna sérstaka aðgát og gott að hafa eftirfarandi í huga:
- NAF systurfélag FÍB í Noregi mælir ekki með akstri venjulegra fólksbíla í meira en 20 cm vatnsdýpi og 30 til 35 cm vatnsdýpi fyrir jeppa og stærri bíla.
- Við vatnsakstur skiptir máli að keyra á jöfnum og hægum hraða. Eftir því sem bíllinn fer hraðar eys hann meira vatni sem eykur hættuna á að vatn þvingist upp í vélarrýmið og inn á vél eða komist í viðkvæman búnað. Einnig eykst álag á yfirbyggingu bílsins þannig að plasthlutir geta aflagast eða losnað af. Einnig missa dekkin grip og byrja að fljóta á vatninu og erfitt verður að stýra bílnum.
- Óæskilegt er að aka um veg eð götu með djúpu vatni ef annar bíll er að koma á móti. Vatnsborðið getur hækkað hratt þegar bílar mætast sem eykur líkur á skemmdum.
- Ávallt skal hafa í huga að vegarskemmdir og holur geta leynst undir vatnsyfirborðinu og valdið skaða á hjólabúnaði og undirvagni.
- Drepi bíll á sér í djúpu vatni gæti verið varasamt að endurræsa þar sem vatn gæti sogast inn á vél.
- Prófið hemlavirkni bílsins eftir að hafa ekið um mikið vatn. Bremsur geta daprast verulega eftir akstur í vatni og það krefst aukinnar árvekni ökumanna.
- Vatn sem berst inn í bíl þarf að þurrka vel upp og loftræsta eins fljótt og mögulegt er.
- Komi til tjóns á bíl vegna vatns eða ákomu þá skal tilkynna það sem fyrst til viðkomandi tryggingafélags og einnig á ábyrgðaraðila, veghaldara viðkomandi vegar.
- Góð regla er að tilkynna frávik eins og holur og vatnssöfnun sem fyrst inn á Vegbót, vefsvæði FÍB, þannig að upplýsingar berist sem fyrst til viðeigandi veghaldara svo að veghaldari geti brugðist við sem fyrst til að fyrirbyggja frekara tjón.