Vatn komst í birgðageymi bensíns hjá N1 í Hveragerði

Í gærkvöldi, þriðjudag, varð starfsfólk N1 í Hveragerði þess áskynja að regnvatn hefði komist í birgðageymi bensíns í miklu vatnsveðri sem gekk þá yfir á Suðurlandi. Bilunin uppgötvaðist eftir ábendingar frá ökumönnum sem dælt höfðu bensíni á ökutæki sín á stöðinni og sem urðu fyrir gangtruflunum fljótlega eftir áfyllingu. Strax í kjölfarið var sala af geyminum stöðvuð og vinna hafin við bilanagreiningu að því er fram kemur í tilkynningu frá N1.

Eftir yfirferð gagna í gærkvöldi og morgun hefur komið í ljós að alls tóku 75 aðilar bensín eftir að vatn komst í geyminn hjá N1 í Hveragerði og þar til salan var stöðvuð. Starfsfólk N1 hefur unnið í allan dag að því að ná sambandi við hlutaðeiganda til að bjóða þeim alla nauðsynlega þjónustu við úrbætur sinna mála vegna óhappsins. Hefur náðst í flest en N1 hvetur þá ökumenn, sem enn hefur ekki náðst samband við, til að setja sig í samband við N1 með því að hringja í síma 440-1000 eða senda tölvupóst á netfangið silja@n1.is.

Bilanagreining

Komið hefur í ljós að sérstakir mælar frá Olíudreifingu sem staðsettir eru í tönkum stöðvarinnar, og eiga að láta vita með hljóðmerki mengist eldsneytið, virkuðu ekki sem skildi. Aðgerðir standa nú yfir á starfssvæðinu þar sem verið er að skoða hvernig regnvatnið komst í birgðageyminn. Jafnframt er verið að skipta umræddum mælum út fyrir nýja enda gerir N1 skýlausa kröfu um sölu á fyrsta flokks eldsneyti til viðskiptavina sinna.