Vaxandi athygli á mænunskaðarannsóknum
Dagana 11.-13. sept. sl. fór fram á gamla Loftleiðahótelinu sem nú heitir Hotel Natura, sérfræðingafundur um mænunskaða, forvarnir, gagnasöfnun og rannsóknir og meðferð og umönnun þeirra sem hlotið hafa mænuskaða. Fundinn sátu m.a. nokkrir af fremstu vísindamönnum landsins, sem fást við afleiðingar mænuskaða. Rita Cuypers frá FIA – alþjóðasamtökum bifreiðaeigendafélaga, sem FÍB er aðili að, sat fundinn fyrir hönd samtakanna og flutti erindi.
Fundurinn var liður í þeirri dagskrá sem efnt er til á vegum velferðarráðuneytisins á sviði heilbrigðis- og félagsmála í tengslum við formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni árið 2014. Alþingi samþykkti í maí síðastliðnum þingsályktun um aðgerðir í þágu lækningar við mænuskaða. Var ríkisstjórninni falið að fylgja eftir vitundarvakningu um mænuskaða á alþjóðavettvangi, jafnhliða stuðningi við átak Sameinuðu þjóðanna um bætt umferðaröryggi. Einnig var kveðið á um að stjórnvöld skyldu beita sér á formennskuári Íslands í Norrænu ráðherranefndinni þannig að áherslu á mænuskaða á formennskuárinu verði fylgt eftir á næstu árum í norrænu samstarfi.
FIA – alþjóðasamtök bifreiðaeigendafélaga gegna lykilhlutverki í innleiðingu verkefna fyrir Sameinuðu þjóðirnar á þeim áratug sem helgaður er bættu umferðaröryggi sem nú stendur yfir. Aðkomu FIA að þessu brýna málefni má rekja til áralangrar og ótrauðrar baráttu Auðar Guðjónsdóttur forsvarsmanns Mænuskaðastofnunar Íslands sem um margra ára skeið hefur barist fyrir auknum rannsóknum á mænuskaða sem leitt gætu til þess að lækning fyndist. Þegar Jean Todt forseti FIA heimsótti FÍB á Íslandi í ársbyrjun 2011 átti hann m.a. fundi með Auði og forseta Íslands, Ólafi Ragnari Grímssyni og síðan þá hefur alþjóðlegt samstarf við að rannsaka og leita lækninga við mænuskaða eflst jafnt og þétt. Þátttaka Ritu Cuypers er til vitnis um þetta aukna samstarf og aukna áhuga á málefninu.