Vaxandi slysahætta vegna viðhaldsskortsins
Ástandið á vegum og götum vegna langvarandi viðhaldsskorts og slóðaskapar er orðið mjög alvarlegt og hættulegt og versnar dag frá degi. Tilkynningar um óhöpp og slys hrannast upp, m.a. hjá Sjóvá; tryggingafélagi höfuðborgarinnar. Þótt ekki séu nema rúmir tveir mánuðir frá áramótum hefur tryggingafélagi borgarinnar borist skýrslur um 122 slík tjón. Í fyrra voru þau á sama tímabili 35.
Þessi mál voru til umfjöllunar á 30. Landsþingi FÍB sl. laugardag og var svohlóðandi ályktun samþykkt:
„Áskorun til stjórnvalda um þjóðarátak gegn niðurbroti vega
Ástand vega og gatna er mjög lélegt um þessar mundir. Á höfuðborgarsvæðinu þar sem umferð er mest á landinu og á helstu þjóðleiðum utan þess hafa djúp hjólför fengið að myndast í yfirborð vega og gatna og lítið verið gert til úrbóta. FÍB hefur ítrekað varað við þessu ástandi sem er bæði varasamt og háskalegt.
Sparnaður og niðurskurður í viðhaldi og nýbyggingum vega er farinn að kosta bíleigendur, fyrirtæki og samfélagið í heild verulega fjármuni. Þetta ástand eykur mjög hættu á slysum, meiðslum og manntjóni. Slæmir vegir auka kostnað við viðgerðir og viðhald bíla, jafnframt aukast tafir og óþægindi vegfarenda.
Um land allt hefur verið sparað svo í viðhaldi gatna hjá ríki og sveitarfélögum undanfarin ár að stórsér á vegakerfinu. Ef fram heldur sem horfir brotna þjóðvegir niður. Kostnaðurinn við endurnýjun margfaldast ef viðhaldsleysið leiðir af sér það alvarlegt niðurbrot á yfirborðsslitlaginu að það brotnar og rofnar þannig að niðurbrotið nær einnig að skemma undirlagið.
XXX. landsþing FÍB skorar á ríkisstjórn og sveitarfélög að tryggja Vegagerðinni og öðrum veghöldurum þá fjármuni og önnur verkfæri sem til þarf til að hindra frekara niðurbrot vega og gatna.“