Veðrið eykur vandann í bílaframleiðslunni

Stórhríðar hafa geisað í vikunni í nyrstu héruðum Bandaríkjanna og eru að lama bandaríska bílaiðnaðinn sem er að stórum hluta þarna norðurfrá – í Michigan, Ohio og Indiana. Búið er að loka yfir 30 bílaverksmiðjum vegna þess að þær eru orðnar uppiskroppa með íhluti í nýju bílana. Nýjar birgðir komast ekki í hús vegna ófærðar og starfsfólkið kemst ekki til vinnu.

 Stutt framleiðsluhlé t.d. vegna eðlilegs viðhalds eða smábilana eru ekki óalgeng í bílaverksmiðjunum. En löng hlé vegna ytri aðstæðna eins og nú ríkja eru sjaldgæfari og geta orðið mjög kostnaðarsöm. Algengt er að bílaverksmiðjur séu mannaðar tveimur vakthópum og þegar reksturinn stöðvast getur það auðveldlega kostað allt að milljón dollurum á sólarhring. Og nú hefur þurft að loka yfir 30 verksmiðjum þannig að um umtalsvert áfall er að ræða fyrir hinn „þjóðlega“ bandaríska bílaiðnað sem átt hefur í gríðarlegum erfiðleikum um langt árabil en hefur verið að ná vopnum sínum undanfarna mánuði.