Veðurstofan varar við slæmum akstursskilyrðum á Austurlandi
Þótt komið sé inn í fyrstu viku júnímánaðar er ökumönnum bent á að akstursskilyrði geta verið varhugaverð í vissum landshlutum í dag .Það er hálka, hálkublettir eða krapi á nokkrum fjallvegum á Norðaustur- og Austurlandi og þar er gul viðvörun í gildi. Veðurstofan varar við slæmum akstursskilyrðum.
Ökumenn, sem voru á ferð á Mývatnsöræfum snemma í morgun, vildu koma því á framfæri að ekki sé auðvelt að vera á sumardekkjum þegar þeir fóru þar um. Ökumönnum er bent á að aka eftir aðstæðum og fara varlega.
Í viðvörumn frá Veðurstofu Íslands kemur fram að búast megi við hvössum vindhviðum við fjöll suðaustan til á landinu sem geta verið varhugaverðar ökutækjum sem taka á sig mikinn vind. Gul viðvörun hefur verið í gildi frá því klukkan 4 í nótt á Austfjörðum og Suðausturlandi. Viðvörunin gildir til klukkan 20 í kvöld.