Vegagerðin hyggst bæta ökumönnum tjónið
Vegagerðin hyggst bæta ökumönnum það tjón sem hlotist hefur af blæðingum í klæðingu á fjölmörgum stöðum frá Borgarnesi að Öxnadalsheiði. Á það bæði við um þrif og tjón eftir atvikum. Á þetta sérstaklega við um þá sem urðu fyrir tjóni áður en tilkynning um blæðingu í klæðingu barst. Vegagerðin hvetur alla tjónþola til að fylla út tjónaskýrslu. Þetta kom fram á mbl.is
G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, segir að blæðingin í klæðingunni líti út fyrir að vera meiri en áður hefur sést án þess að hann geti fullyrt um það.
„Lögin segja að á meðan við höfum ekki tilkynnt það eða merkt það þá er ábyrgðin Vegagerðarinnar,“ segir G. Pétur. Hann hvetur þá sem telja sig hafa orðið fyrir tjóni að fylla út tjónaskýrslu á vef Vegagerðarinnar.