Vegagerðin lofar bótum
Vegagerðin og Sjóvá, tryggingafélag Vegagerðarinnar ætla að bæta ökumönnum tjón á bílum þeirra sem sannanlega verða rakin til tjörublæðinga á vegum dagana 18.-23. janúar sl.
Jafnframt biðst Vegagerðin í frétt um málið á heimasíðu sinni, velvirðingar á ástandinu á tjörublæðandi vegum og þeim óþægindum sem af því hefur hlotist. Í umræddri frétt Vegagerðarinnar er sleginn sá fyrirvari að þessi ákvörðun hafi verið tekin þrátt fyrir að orsök blæðinganna liggi ekki nákvæmlega fyrir og hafi því ekki fordæmisgildi. Ennfremur hvetja Vegagerðin og Sjóvá ökumenn til þess að gæta fyllstu varúðar og haga ávallt akstri í samræmi við aðstæður hverju sinni.
Fagna ber að Vegagerðin hafi hér með viðurkennt bótaskyldu þótt sú viðurkenning sé með fyrirvörum um tiltekna daga, meintan skort á vitneskju um orsakir blæðinganna og kannski hugsanlegt óvarkárt aksturslag ökumanna og óaðgætni.
Eftir stendur það að nauðsynlegt er að setja í gang hið fyrsta óháða rannsókn á því hvernig á því stendur að bundið slitlag á þjóðvegum er jafn lélegt og raunin er og hefur verið um langt árabil. Algerlega er fráleitt að láta duga að Vegagerðin rannsaki sjálfa sig og sín vinnubrögð. Meðal spurninga sem svör þurfa að fást við eru:
Hvaða vegi og vegarkafla er um að ræða?
Hvaða efni voru notuð við klæðningu þeirra? Hvernig var að verkum staðið, hverjir unnu þau og hvenær?
Hvaða tilraunir hefur Vegagerðin verið að gera með efni og efnanotkun við gerð veggklæðninga og hver heimilaði henni að gera almenna vegfarendur að tilraunadýrum og þátttakendum í þessum tilraunum sínum að þeim forspurðum?
(Hér má lesa svolítið um þessar tilraunir og vegfarendur kannast væntanlega við það þegar umferðin er notuð til að valta niður grjótmulninginn í tjöruna á vegyfirborðinu, þegar ný klæðning er lögð).
Neytendur, sem eru eigendur þjóðveganna og vinnuveitendur Vegagerðarinnar, eiga heimtingu á skýlausum svörum.