Vegagerðin segir stefna í 9,4 prósent aukningu umferðar á Hringveginum í ár
Metin í umferðinni eru að falla hvert af öðru. Fram kemur á heimasíðu Vegagerðarinnar að umferð á Hringveginum hafi aukist um 7,8 prósent í júní í ár samanborið við sama mánuð 2015. Umferðin í júní hefur aldrei áður mælst meiri á Hringveginum frá því að þessi samantekt hófst árið 2005. Að meðaltali fóru 6.300 fleiri bílar framhjá 16 teljurum Vegagerðarinnar á hverjum sólarhring í júní sl. heldur en í sama mánuð í fyrra.
Umferðin jókst mest milli mánaða um Austurland eða 27,5 prósent en minnst um höfuðborgarsvæðið, 4,9 prósent. Líkt og milli mánaða þá hefur umferðin það sem af er 2016 aukist mest um Austurland eða tæp 33% en minnst um höfuðborgarsvæðið eða rúmlega 11%.
Umferð eftir vikudögum
Fyrstu 6 mánuði ársins er umferðaraukningin mest á sunnudögum eða tæp 17% en minnst á föstudögum rúmlega 10%. Umferðin hefur að jafnaði verið mest á föstudögum en minnst á þriðjudögum.
Umferðarspá fyrir 2016
Vegagerðin áætlar að umferðin geti aukist um 9,4%, um lykilteljarana 16 á Hringveginum, milli áranna 2015 og 2016. Metið á undan er frá 2007 þegar umferðin jókst um 6,8% á milli ára. ,,Það stefnir því í að enn eitt metið geti fallið nú í ár ef umferðin hegðar sér líkt og undanfarin ár“, segir í frétt Vegagerðarinnar.