Vegagerðin - tækifæri með bættum tækjabúnaði
Töluverð endurnýjun verður á tækjakosti stoðdeildar mannvirkjasviðs Vegagerðarinnar í sumar. Til stendur að fjárfesta í nýju falllóði, umferðargreini, jarðsjár- og landmælingadróna og borvagni auk þess sem tæki á rannsóknarstofu Vegagerðarinnar verða endurnýjuð.
„Með kaupum á þessum tækjum stígum við mikið framfaraskref og munum standa jafnfætis hinum Norðurlandaþjóðunum í jarðtæknirannsóknum,“ segir Birkir Hrafn Jóakimsson, forstöðumaður stoðdeildar.
Hlutverk stoðdeildar er að annast rannsóknir á jarðefnum til vegagerðar. Deildin veitir öðrum deildum og svæðum Vegagerðarinnar þjónustu sem tengist jarðfræðirannsóknum og rekur einnig rannsóknarstofu í höfuðstöðvum Vegagerðarinnar í Garðabæ. Meðal annarra verkefna má nefna umsjón með gerð leiðbeininga fyrir útboðs- og verklýsingar og með gerð leiðbeininga, regla og handbóka um framkvæmdir og viðhald. Einnig sér deildin um ýmiskonar landmælingar í lofti, láði og legi. Deildin hefur yfir að ráða fjölbreyttum tækjakosti sem notaður er til ýmissa rannsókna bæði á sjó og landi. Í ár stendur fyrir dyrum að endurnýja nokkur tæki sem munu bæta þjónustu deildarinnar til muna.
Falllóð sem metur raunverulegt ástand vega
„Fallóð er notað til að finna burðarþolsgildi vega. Það er í stórum dráttum kerra með þungu lóði sem er látið falla á veginn í ákveðinni hæð. Nemar í tækinu geta metið styrk vegbyggingarinnar,“ útskýrir Birkir en falllóðið sem Vegagerðin notar í dag er frá árinu 1985. „Það dugar ágætlega á umferðarminni vegi en er of létt til að geta mælt malbikaða vegi með þungri umferð eins og hér á höfuðborgarsvæðinu.“
Stefnt er á kaup á nýjum umferðargreini sem getur mælt þyngd ökutækja með meiri nákvæmni. Með jarðsjárdrónanum verður stigið stórt skref í hugbúnaði og úrvinnslu jarðsjárgagna. Til stendur að festa kaup á nýjum og stærri alhliða borvagni sem nær dýpra en borvagninn sem nú er í notkun hjá Vegagerðinni. Undanfarið hefur staðið yfir vinna við að koma upplýsingum úr veggreini, falllóði o.fl. í eina kortasjá og fá þannig ástandsmælingu á vegum landsins. Öll þessi tækjakaup miða að því að safna gögnum svo hægt sé að taka ákvarðanir um uppbyggingu og viðhald vega sem byggðar eru á betri þekkingu og upplýsingum.
Mynd: Gamla falllóðið er frá árinu 1985 og 50 kN miðað við 320 kN sem nýtt fallóð mun vega. Nýja falllóðið mun nýtast betur á vegum á höfuðborgarsvæðinu þar sem þykkt slitlags er mikið.