Vegatollamúr umhverfis Kaupmannahöfn

Pólitískt kjörnir sviðsstjórar borgarmála í Kaupmannahöfn, valdir af kjósendum Sósíaldemókrata (S) og Sósíalistaflokksins (SF), vilja reisa tollamúr umhverfis Kaupmannahöfn og legga 30 DKR (um 670 ísl. kr.) gjald á bílaumferð inn í borgina og svo aftur út úr henni. Meginforsenda tilllögu þeirra er þó alls ekki sú sama og hjá vegatollasinnum á Íslandi – að örva atvinnu og hagvöxt. Dönsku vegatollarnir eru einvörðungu hugsaðir sem verkfæri til að draga úr bílaumferð í og umhverfis Kaupmannahöfn ekki ósvipað og gert er í kring um Osló í Noregi.

En þótt Danir búi við afbragðsgott almannasamgöngukerfi og því minna háðir einkabílnum en Íslendingar, virðist meirihluti þeirra andsnúinn vegatollahugmyndinni, og andstöðuna er ekki síst að finna meðal samflokksmanna þeirra sem flytja tillöguna.  Andstaðan er vissulega minnst meðal vinstrisinnaðs fólks, en engu að síður veruleg innan raða vinstrisinnaðra. Ný Gallupkönnun leiðir þetta í ljós og forystumenn Sósíaldemókrata og SF eru undrandi, ekki síst á því að um það bil fjórir af hverjum tíu kjósendum sem hyggjast kjósa S og SF í kosningunum sem framundan eru, eru andsnúnir vegatollatillögunni. Þetta virðist koma formönnum vinstri flokkanna á óvart, þeim Helle Thorning-Schmidt (S) og Villy Søvndal (SF). Þau hafa harðneitað að svara spurningum fjölmiðla um málið fyrr en eftir þingkosningarnar sem framundan eru.

Á grafinu hér að neðan má sjá meginniðurstöður Gallupkönnunarinnar og hvernig viðhorf svarenda reyndust eftir flokkslínum. Tölurnar eru prósentutölur.

http://www.fib.is/myndir/Vegat.koben.jpg