Vegatollar og lægri eldsneytisgjöld eða…?
Í frétt í Fréttablaðinu í dag á bls. 6 er rætt við Kristján Möller fyrrv. samgönguráðherra og skuggaráðherra vegatollamúrsins sem hann berst fyrir umhverfis höfuðborg Íslands. Vitnað er einnig í fréttinni til eldri ummæla hans um vegatollamálið í þingræðu.
Kristján segist vel skilja að að 41 þúsund kosningabærir Íslendingar hafi mótmælt vegatollahugmynd hans og sjálfur hefði getað hugsað sér að mótmæla vegatollum í ofanálag við bensín- og olíugjöld. Það hafi bara aldrei verið ætlunin, heldur hefði hún verið sú að lækka þau gjöld á móti vegatollunum. Hann segir að frjálslega hafi verið farið með ýmsar staðreyndir í þessu máli og meðal annars þetta, sem sé grundvallaratriði.
Þetta hljómar afar undarlega. Er Kristján Möller að segja að fyrirhugaðir sér-vegtollar eigi að lækka almenn veggjöld á eldsneyti um samsvarandi upphæð? Verður þá ekki heildarútkoman 0 krónur fyrir ríkissjóð? Er Kristján Möller hér að segja það mögulegt að fara út í að flýta miklum og nauðsynlegum vegabótum á Suðvesturhluta landsins um 16 ár og það fyrir ekki neitt?
Er þetta sami Kristján sem sagt hefur aftur og aftur að ríkissjóður sé galtómur og eigi ekki fyrir nauðsynlegum endurbótum á vegunum út frá höfuðborgarsvæðinu. Ekki sé hægt að endurbæta þá nema með því að innheimta veggjöld þegar framkvæmdum lýkur eftir ca fjögur ár?
Er þetta sami Kristján og segir líka í þessari sömu frétt Fréttablaðsins í dag að einsýnt sé að ef ekki verði innheimtir vegtollar, tefjist framkvæmdirnar um 20 ár eða meira?
Ef þetta er svo, er þá ekki rétt að ráðast í framkvæmdirnar en sleppa því bara að skera vegina um leið frá þjóðvegakerfinu og fela þá og vegatollainnheimtu um þá sérstökum hlutafélögum? Hversvegna ætti að fara út það og búa þannig til misrétti milli Íslendinga eftir búsetu og henda fjármunum í það að setja upp rándýrt og flókið innheimtukerfi í ofanálag ef ávinningurinn er enginn? Hvað meinar maðurinn eiginlega?