Vegatollmúrinn um höfuðborgarsvæðið

Nú þegar veggjaldahugmyndir framkvæmdavaldsins hafa loks náð rækilega eyrum fjölmiðla og þar með þjóðarinnar allrar, er ekki laust við að óhug slái að almenningi, ekki síst þeim íbúum grannbyggða höfuðborgarsvæðisins sem sækja vinnu eða skóla á höfuðborgarsvæðið. Þessi vegatollahugmynd er, eftir því sem nú má skilja má af fréttum, harðákveðið mál af hálfu stjórnvalda. Það er út frá lýðræðislegum sjónarmiðum dálítið óhugnanlegt, því að fram að þessu hefur engin almenn umræða farið fram um það og meira að segja sveitarstjórnarmenn í þeim byggðarlögum sem málið snertir virðast koma af fjöllum ekkert síður en almenningur.

Það fólk í grannbyggðum höfuðborgarsvæðisins sem sækir daglega vinnu eða skóla til höfuðborgarinnar sér nú fram á að þurfa að greiða allt að 700 kr. veggjald fyrir hverja ferð til og frá höfuðborginni sem þýðir minnst 170 þúsund krónur árlega. Til þess að eiga fyrir þessum nýju veggjöldum þarf hver greiðandi að afla aukalega 250 þúsund króna. Þegar hann hefur staðið skil á skatti af upphæðinni verða eftir 170 þúsund sem fara þá í vegatollana. Þessar upphæðir miðast við það að íbúi á Selfossi sem sækir vinnu í Reykjavík, (eða Reykvíkingur sem sækir vinnu á Selfossi) þarf að fara til vinnu sinnar a.m.k. 22 sinnum í mánuði í 11 mánuði á ári og situr síðan heima og fer hvergi í sumarleyfismánuðinum.

Þau byggðarlög sem þetta vegatollamál mun fyrst og fremst snerta eru byggðirnar austan Hellisheiðar, á Reykjanesi og í Borgarfirði. Öll eru þau innan svæðis sem stjórnmálamenn hafa skilgreint sem eitt atvinnusvæði. En auðvitað snerta fyrirætlanirnar alla landsmenn hvar svo sem þeir búa, því að allir landsmenn þurfa að eiga mjög fjölbreytt samskipti og viðskipti við höfuðborgarsvæðið, íbúa þess, fyrirtæki og stofnanir. Góðar og hindrunarlausar samgöngur eða hreyfanleiki (Mobility) eru ein af höfuðforsendum góðra lífskjara og lífsgæða. Vegakerfið er einskonar blóðrás samfélagsins og sú hugmynd að reisa vegatollamúr umhverfis höfuðborgarsvæðið og hálf- eða al-einkavæða vegina og fela í umsjá og jafnvel eign einhverra vega(tolla)félaga hlýtur einfaldlega að teljast fráleit.

Meinloka - firra                       

Það er erfitt annað en að líta á þá hugmynd um að einkavæða geðþóttavalda kafla íslenska þjóðvegakerfisins öðruvísi en sem meinloku og firru. Hugmyndin er í stórum dráttum sú að stofna vegahlutafélög og afhenda þeim einkaleyfi til að endurbæta þessa völdu vegarkafla og innheimta síðan vegatolla af umferð um þá að endurbótum loknum. Fyrrverandi samgönguráðherra, Samfylkingarmaðurinn Kristján Möller hefur gerst aðaltalsmaður þessa og forsvarsmaður og talað um 40 milljarða pakka, - beint framlag lífeyrissjóða til þessara vegafélaga sem að vísu var sagt að yrðu í opinberri eigu. Lífeyrissjóðir áttu sem sé að verða beinir lánadottnar þessara vega(tolla)félaga sem áttu síðan að innheimta vegatolla til að standa undir eigin rekstri og starfsmannahaldi og undir vöxtum og afborgunum af lífeyrissjóðalánunum.

Nú er hins vegar orðið ljóst að lífeyrissjóðastjórar eru ekki tilbúnir til að taka þessa áhættu og þar með er hugmyndin um vegatollafélögin hrunin til grunna. Þótt svo sé nú komið er eins og vegatollamenn eigi erfitt með að kyngja málinu og tapa þannig andliti. Þeir tala í fréttum dagsins í dag eins og hugmyndin sé enn í góðu gildi. Núverandi samgönguráðherra, VG-maðurinn Ögmundur Jónasson hlýtur að þurfa að svara því fyrr en seinna hvort hann ætli að halda málinu til streitu.

Þjóðvegakerfi

Samgöngur á landi á Íslandi byggjast á því að samfélagið eigi vegina og hafi af þeim allan veg og vanda. Vegakerfið er þjóðvegakerfi. Ríkið hefur byggt það upp og rekur það á bæði samfélagslegum og hagfræðilegum forsendum. Þar sem landið er eyja er þjóðvegakerfið lokað á þann hátt að það tengist vegakerfum annarra ríkja að mjög litlu leyti, einna helst með vikulegum ferjusiglingum milli Seyðisfjarðar og Norður-Jótlands.

Sátt um innheimtuaðferð

Þótt stundum sé deilt um atriði eins og forgangsröðun í vegagerð og hversu mikil fjáröflun ríkisins til vegaframkvæmda og –viðhalds skuli vera, þá hefur ríkt sátt um þá aðferð að innheimta vegafé með sköttum á eldsneyti. Sú hugmynd sem nú hefur verið unnið eftir, að taka af handahófi einn og einn kafla af samhangandi og samstæðu þjóðvegakerfi á Íslandi út fyrir sviga og gera gjaldskyldan sérstaklega, er brot á grundvallarhugmyndinni um þjóðvegi ríkisins – samfélagsins. Hugmyndin um að sérstakt eignarfélag, hvaða nafni sem nefnist, ehf, ohf, sem byggi, eigi og reki með gjaldtöku valda lykilkafla í þjóðvegakerfi Íslands er ósættanleg mótsögn við grundvallarhugmyndina um samhangandi þjóðvegakerfi ríkisins í þágu allra byggða, í þágu allra landsmanna jafnt. Ef ætlunin er að breyta þessu, þá þarf að spyrja þjóðina fyrst. Það hefur ekki verið gert.