Vegbætur sem borga sig í fækkun slysa
Sérstakt sameiginlegt átak EuroRAP / i-RAP og vegagerðarinnar í Slóvakíu í að endurbæta hraðbrautir og aðalvegi í Slóvakíu er afstaðið. Átakið fólst í því að fyrst var gerð EuroRAP-öryggisúttekt á vegunum og eftir að þeir ágallar og svartblettir sem úttektin leiddi í ljós, höfðu verið skilgreindir, staðsettir og síðan lagfærðir, er fullyrt að endurbæturnar afstýri 355 dauðaslysum og mjög alvarlegum slysum næstu 20 árin. Lesa má nánar um þetta í skýrslu iRAP hér.
Átakið hófst í desember 2013 og snerist um það að áhættugreina og síðan lagfæra fimm hraðbrautakafla samtals 327 km langa. Kaflarnir sem voru á hraðbrautunum D1 og D2 og á R1 voru lagfærðir eftir áhættugreininguna og síðan teknir út aftur með aðferðum EuroRAP í febrúar 2016. Þá varð ljóst að umskipti höfðu orðið til hins betra.
Eftir EuroRAP úttektina í des. 2013 reyndust 27 prósent vegakaflanna vera þriggja stjörnu vegir eða betri. Hin 73 prósentin reyndust vera 1-2ja stjörnu vegir sem þýddi að slysahætta á þeim þótti ekki ásættanleg. Eftir lagfæringar á þeim ágöllum sem EuroRAP skoðunin í febrúar sl. leiddi skoðunin í febrúar 2016 í ljós þá gleðilegu breytingu að 77 prósent veganna voru nú orðnir þriggja störnu vegir eða betri og einnar stjörnu kaflarnir alveg horfnir.
Endurbæturnar sem gerðar voru milli úttektanna voru í raun og veru alls ekki stórfelldar né dýrar. Þær fólust fyrst og fremst í því að allar yfirborðsmerkingar eins og miðlínur, heilar og/eða óbrotnar línur milli akreina og kantlínur, bæði sléttar sem og gáraðar, voru endurnýjaðar og bættar, vegaxlir voru breikkaðar, háskalegar hindranir í vegaköntum og utan veganna voru fjarlægðar, vegrið voru sett upp miklu víðar en áður og eldri lagfærð og endurbætt. Að auki voru innakstursvarnir endurnýjaðar í varnir með krumpusvæðum sem deyfa högg ef á þær er ekið.
Eftir átakið er þriðjungur hraðbrauta-og aðalveganets Slóvakíu nú 3ja til 5 stjörnu vegir. Ætlunin er nú að halda áfram þessum endurbótum og er markmiðið það að engir vegir í landinu verði minna en þriggja stjörnu vegir.