Vegfarendur beðnir að kynna sér veðurspár áður en lagt er af stað
Vakin er athygli á gulum- og appelsínugulum viðvörunum Veðurstofu Íslands fyrir mánudag og þriðjudag, 30. og 31. janúar. Gera má ráð fyrir að til lokana geti komið og eru vegfarendur beðnir að kynna sér veðurspár áður en lagt er af stað.
Ríkislögreglustjóri hefur lýst yfir óvissustigi Almannavarna vegna vuðurs. Boðað hefur verið til samráðsfundar klukkan hálf ellefu. Gangi veðurspár eftir verður samhæfingarstöð virkjuð.
Á höfuðborgarsvæðinu er gul viðvörun vegna veðurs frá klukkan 15 í dag og gildir hún í hálfan sólarhring, eða til klukkan 3 í nótt. Lögreglan vekur athygli á appelsínugulum viðvörunum í kringum höfuðborgarsvæðið, en þar er búist við að vegir geti lokast með stuttum fyrirvara.
Veður fer hratt versnandi á Suðurlandi upp úr hádegi í dag. Í Mýrdal og undir Eyjafjöllum má búast við ofsaveðri og geta hviður þar verið á bilinu 40 til 55 m/s frá klukkan 14 til 18, og litlu síðar í Öræfum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá veðurfræðingi Vegagerðarinnar. Vegum víðsvegar um landið kann að loka með stuttum fyrirvara.
Á Hellisheiði, Þrengslum, Mosfells- og Lyngdalsheiði verður hríðarveður og lítið skyggni eftir klukkan 14. Stendur það fram á nótt.