Veggjöld ekki heppileg fjármögnunarleið

Í aðsendri grein í Morgunblaðinu um síðustu helgi undir yfirskriftinni ,,Stórátak í vegaframkvæmdum – Fjármögnun“ segir greinahöfundur Pálmi  Kristinsson, verkfræðingur, að hans mati eru veggjöld í þeirri útfærslu og tilgangi sem nú er rætt um ekki heppileg leið og ekki til þess fallin að viðtæk sátt náist um hana.

Pálmi segir m.a. í greininni að eins og gefur að skilja eru mjög skiptar skoðanir um þessi áform stjórnvalda. Ýmsir hafa borið þessa fyrirhuguðu gjaldtöku saman við veggjöldin sem innheimt voru í Hvalfjarðargöngunum. Þessi tvö verkefni eru mjög ólík og engan veginn samanburðarhæf. Þar var innheimt afnotagjald sem eingöngu var notað til að standa straum af gerð og rekstri ganganna og þar gátu ökumenn jafnframt valið annan kost, að aka gömlu leiðina um Hvalfjörð. Þessar forsendur eru ekki til staðar í þeim vegaframkvæmdum sem nú eru til umræðu. Að mati Pálma eru veggjöld í þeirri útfærslu og í þeim tilgangi sem nú er rætt um ekki heppileg leið og ekki til þess fallin að víðtæk sátt náist um hana í þjóðfélaginu. Helstu ókostir veggjalda í þessu verkefni eru:

-  Veggjöldin eru ósanngjörn leið sem mismunar fólki eftir búsetu. Þau endurspegla ekki notkun á þeim leiðum sem falla undir fyrirhuguð framkvæmdasvæði.

-  Veggjöldin koma hart niður á þeim sem búa á og í nágrenni höfuðborgarsvæðisins og þurfa að aka daglega framhjá „gjaldstöðvum“ (myndavélum). Margir hinna óheppnu munu aðeins aka stuttan kafla af þeirri leið sem framkvæmdum er ætlað að ná til.

-  Margir munu því þurfa að greiða há gjöld á hverju ári fyrir litla notkun. Á sama tíma mun stór hluti þjóðarinnar sleppa að mestu leyti við að greiða þessi gjöld þótt viðkomandi noti aðra hluta þjóðvegakerfisins til jafns við hina óheppnu sem þurfa að greiða á þessum leiðum.

-  Gera má ráð fyrir að stofnkostnaður við undirbúning og kaup á flóknum tæknibúnaði (myndavéla- og innheimtukerfi) verði mjög hár og að þessi búnaður úreldist á 7-10 árum.

-  Gera má ráð fyrir að innheimtu- og rekstrarkostnaður og afskriftir vegna tekna sem ekki innheimtast verði allt að 10-20% af tekjum.

-  Ökumenn þurfa að kaupa fyrirframáskrift til að njóta afsláttarkjara. Viðbúið er að margir eigi erfitt með að standa undir háum fjárútgjöldum vegna þessa, einkum hinir tekjulágu, s.s. námsmenn og einstæðir foreldrar.

-  Þessi gjaldaleið nær illa til erlendra ökumanna á ökutækjum sem eru á erlendum númerum.

-   Líklegt er að innheimta álagsgjalda (sekta) vegna vanskila og ökutækja sem ekki hafa verið skráð inn í kerfið verði bæði flókin og dýr.

 Pálmi segir í greininni að miðað við framangreindar forsendur má gera ráð fyrir að reiknað meðalveggjald (gjald án afsláttar og undirflokkunar) fyrir hjón með tvo bíla sem búa í Kjósinni og sækja vinnu inn á höfuðborgarsvæðið verði allt að 4-500 þ.kr. á ári (8-10 m.kr. á 20 árum) á meðan við hjónin sem búum í Kópavogi þurfum aðeins að greiða 1-2 þ.kr. á ári í þessi sömu veggjöld. Líklega ökum við svipaða vegalengd á hverju ári á þjóðvegakerfinu, þó aðallega á Kringlumýrarbraut og Miklubraut á meðan þau í Kjósinni eru svo óheppin að þurfa að aka daglega framhjá myndavélum í veggjaldakerfinu. Er einhver sanngirni í þessu?