Veggjöld koma harðast niður á þeim tekjuminni
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, var ómyrkur í máli í ræðu sinni í óundirbúnum fyrirspurna tíma um samgönguáætlanir á Alþingi í gær þar sem hann sakaði forsætisráðherra og flokk hennar um stefnubreytingu og sagði að búið væri að veikja tekjustofna ríkisins. Þetta kom fram á mbl.is Þar fullyrti Logi að auðlindagjöld hefðu verið lækkuð og ríki ráði ekki við uppbyggingu innviða. Fremur er gripið til þess ráðs að fjármagna þarfar framkvæmdir eins og samgöngumál með nýrri skattlagningu sem kæmi niður á fólki með lægstu launin.
Logi sagði ennfremur að nú ætti að grípa til þess ráðs að láta þá borga sem nota í stað þess að þeir greiði sem geta og vísaði til þess að bensíngjöld myndu standa óbreytt þrátt fyrir innheimtu veggjalda.
Þá kom fram á ruv.is að minnihluti samgöngunefndar Alþingis telur ótímabæra og skyndilega umræðu meirihlutans um veggjöld hafa komið í veg fyrir faglega vinnu í nefndinni. Minnihlutinn gagnrýnir stjórnvöld fyrir að vanrækja samgöngur á uppgangstímum.
Nefndarálit minnihluta umhverfis- og samgöngunefndar við samgönguáætlanir til fimm og fimmtán ára er undirritað af þeim Helgu Völu Helgadóttur, Samfylkingu, Hönnu Katrínu Friðriksson, Viðreisn, og stutt af Birni Leví Gunnarssyni sem er áheyrnarfulltrúi. Þau telja aðstæður sem nú séu uppi í samgöngumálum kalla á skjóta úrlausn og gagnrýna stjórnvöld harðlega fyrir að hafa vanrækt samgöngukerfi landsins á tíma mikils uppgangs í ferðaþjónustu og þar með verulegu auknu álagi á alla innviði landsins.
Fyrir liggja tillögur um að leggja fyrirhuguð veggjöld sem ná til þriggja samgönguása. Á Reykjanesbraut þar sem á að tvöfalda veg til Keflavíkurflugvallar. Á Suðurlandsvegi, frá Reykjavík til Selfoss, þar sem á að skilja akstursstefnur að og á Vesturlandsvegi, frá Borgarnesi til borgarinnar.
Þá stendur til að innheimta veggjöld í jarðgöngum landsins en ekki liggur fyrir í hvaða göngum eða hversu hátt gjaldið verður. Allar útfærslur liggja ekki fyrir enn sem komið er og ljóst að mikil vinna er fram undan í þessum efnum. Mikil andstaða er fyrir veggjöldum á landsbyggðinni og til að mynda eru bæjarstjórar í Bolungarvík og Fjarðabyggð ekki fylgjandi gjaldtöku í jarðgöngum