Veggjöld – margir óljósir þættir og útfærsla liggur enn ekki fyrir
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra, segir að það skipti ekki öllu máli hvort frumvarp um veggjöld komi fram í mars, apríl eða maí. Það sé mest um vert að ná utan um málaflokkinn. Fram kom í máli hans í Kastljósi í gærkvöldi að aldrei meira fjármagn verði sett í samgönguáætlun sem sé fullfjármögnuð til næstu fimm ára.
Fram kom í máli ráherra í gærkvöldi að verið sé að skoða hvaða leiðir eru bestar hvað fjármögnunina snertir og ekki sé útilokað að hægt verði að fara einhverjar aðrar leiðir. Aldrei fyrr hafi verið sett eins mikið fjármagn í samgönguáætlun. Sigurður sagði ennfremur að á næstu fimm árum, fullfjármagnaðri áætlun, fara 50 milljarðar, 10 milljarðar á ári í viðhald, og 60 milljarðar í framkvæmdir.
Áfram er unnið í málinu og niðurstaðan gæti orðið að það komi þetta frumvarp sem hann sé með á þingmálaskrá. Síðan sé stefnt að því að vera með nýja samgönguáætlun í haust þegar búið verði að stilla þessu öllu upp. Í Kastljósinu sagði samgönguráðherra að veggjöld séu ein leið ef fólk vilji fara hraðar í framkvæmdir í vegakerfinu, í þágu umferðaröryggis. Allar leiðir er verið að skoða en hann telji ólíklegt að veggjöld verði innheimt í öllum göngum.
Af öllu má vera ljóst í þessu máli að mikil vinna blasir við hvað alla útfærslu áhrærir. Margir hafa harðlega gagnrýnt að ekki sé til kostnaðargreining á því hvað kosti að setja upp, innleiða og reka innheimtukerfi. Þar þurfi að líta til þátta eins og virðisaukaskatts veggjalda, innheimtuþóknunar, utanumhalds og rekstrarkostnaðar. Engin útfærsla liggur fyrir í þessum efnum og því sé alls óvíst hvað fyrirhuguð veggjöld muni þýða og kosta ríkisjóð þegar upp er staðið. Alla útfærslu vantar enn sem komið er.
Mjög skiptar skoðanir eru um þessi áform stjórnvalda. Margir hafa gagnrýnt hana harðlega og telja þetta ekki heppileg leið og ekki til þess fallin að viðtæk sátt náist um hana í þjóðfélaginu. Eins og fram hefur komið telur minnihluti samgöngunefndar Alþingis ótímabæra og skyndilega umræðu meirihlutans um veggjöld hafa komið í veg fyrir faglega vinnu í nefndinni. Minnihlutinn gagnrýnir stjórnvöld fyrir að vanrækja samgöngur á uppgangstímum.
Eins og margoft hefur komið fram hefur FÍB gert alvarlegar athugasemdir við tillögur að fyrirhuguðum veggjöldum þar sem félagið telur vegtolla slæma innheimtuaðferð. Þarna sé verið að koma með hugmyndir um innheimtuaðferðir sem fyrir lítið samfélag erum bara allt of dýrar og útheimta allt of mikla fjármuni. Ríkissjóður taki nú þegar um 80 milljarða króna á hverju ári af skattgreiðendum fyrir afnot á bíl og þjónustu við bíleigendur. Aðeins hluti þeirrar upphæðar er nýttur í vegakerfið
Fram kom í gær á ruv.is að stefnt sé að 200 milljarða vegaframkvæmdum á næstu fimm árum. 60 milljarða á að fá með veggjöldum á suðvesturhorninu. Á Vestfjörðum eru stórar samgönguframkvæmdir ráðgerðar sem og á Austfjörðum.
Í fimm ára samgönguáætlun er gert ráð fyrir 190 milljörðum, þar af 160 í vegi. Meirihluti umhverfis- og samgöngunefndar telur þörfina allt að 400 milljarða og vill að veggjöld brúi bilið eitthvað, en minnihlutinn er ósammála því.
Meirihluti nefndarinnar leggur til að veggjöld fjármagni vegaframkvæmdir á þremur svæðum til að auka öryggi. Á Suðursvæði 1 eru fjórir staðir: Brú á Ölfusá, Biskupstungnabraut og Kambar, Skeiðarvegamót og Skógarhlíðabrekka í Þrengslunum. Þetta eru 35 kílómetrar og kosta rúma 19 milljarða króna.
Í Reykjavík og nágrenni eru 10 staðir. Meðal annars Bæjarháls, Kjalarnes, Reykjanesbraut, Breiðholtsbraut og Grindavíkurvegur, alls um 50 kílómetrar og kosta 32 milljarða. Síðan er lagður til 30 kílómetra kafli á Akrafjallsvegi, sem kostar sex milljarða. Alls eru lagðir til 115 kílómetrar af framkvæmdarsvæðum á Suður- og Vesturlandi sem kosta rúma 57 milljarða króna, kostuð af veggjöldum almennings.