Veggöngum undir Femernsund seinkar enn
Nú er orðið ljóst að umferð getur ekki hafist um fyrirhuguð jarðgöng milli Danmerkur og Þýsklands undir Femernsundið milli Lálands og Femern fyrr en undir lok árs 2021. Forráðamenn Femern hlutafélagsins sem ætlar að bora göngin undrast hversu hið opinbera matsferli gengur hægt.
Upphaflega var gert ráð fyrir brú yfir sundið en við nánari skoðun þótti brú hafa óásættanlega mikil umhverfisáhrif. Niðurstaðan varð því að gera göng sem upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir að yrðu opnuð umferð 2018. Endurskoðaðar áætlanir gerðu síðan ráð fyrir framlengdum framkvæmdatíma tll ársins 2020 sem nú hefur enn lengst til ársins 2021.
Nýju göngin verða 18 kílómetra löng. Þau leysa af hólmi ferjurnar milli Rødby á Lálandi og Puttgarden, en sigling þeirra tekur um 45 mínútur. Með tilkomu ganganna verður E47 vegurinn, sem er stysta leiðin milli Kaupmannahafnar og Hamborgar, því óslitinn.
Í fréttatilkynningu frá forstjóra Femernfélagsins segir að meginástæða seinkunarinnar nú sé sú að um sé að ræða mjög stórt verkefni og flókið sem nái til tveggja ríkja. Bæði ríkin verði að fara rækilega yfir og samþykkja allar verkáætlanir og samhæfa. Það sé tímafrekara og flóknara en haldið var upphaflega, ekki síst vegna þess að mismunandi lög og reglur gildi í hvoru landinu um sig og verklag opinberra aðila einnig mismunandi.
Seinkanirnar eru trúlega ekki neitt sérstakt harmsefni fyrir félagið Scandlines sem gerir út ferjurnar um sundið. Mjög mikil umferð er um það og hagnaður félagsins hefur verið ágætur, en ljóst þykir að með tilkomu ganganna verði rekstur ferja um Femernsund tilgangslaus.
En það er víðar siglt milli Danmerkur og Þýskalands en um Femernsund: Næst annasamasta ferjuleiðin er á vegi E55 milli Gedser á suðurodda Falster-eyju og Warnemunde (Rostock). Ferjufélagið sem þar siglir ætlar að mæta samkeppninni við Femerngöngin með nýjum og risastórum ferjum og lægra verði en vegtollurinn um göngin verður.
Þrátt fyrir seinkanirnar verður sjálfur framkvæmdatíminn sá sami og upphaflega var gert ráð fyrir, eða sex og hálft ár. Göngin verða ekki boruð heldur byggð í einingum á landi sem síðan verður sökkt til botns og tengdar þar saman.